Vinsamlegast ath!

Á Tax Free getur orðið seinkun á afhendingu pantana úr vefverslun.

22. Febrúar 2024

Einfaldur og góður kjúklingaréttur

Konudagurinn er á sunnudag og í tilefni af því skellti Helga Magga í einfaldan, næringarríkan og góðan kjúklingarétt sem hentar einstaklega vel fyrir þá sem telja sér trú um að þeir kunni ekki að elda. Það tekur um það bil 30 mínútur að skella í réttinn og gott að nota pönnu með háum hliðum eða pott.

Innihald:
1 msk olía
3 - 4 kjúklingabringur 750 g
2-3 hvítlauksrif
100 g sólþurrkaðir tómatar 10 -12 stk
360 g risotto hrísgrjón
900 ml kjúklingasoð úr brúsa
200 ml matreiðslurjómi
salt, pipar, hvítlaukskrydd og timían um 1 tsk af hverju kryddi.
fersk basilíka skorin niður og sett yfir hvern disk
parmesan ostur yfir réttinn

Aðferð:
Byrjaðu á því að skera kjúklinginn í bita, steikja upp úr olíunni og steikja hann í gegn. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, hvítlauk og timían. Skerðu sólþurrkuðu tómatana í bita ásamt hvítlauknum, bættu þessu tvennu út á pönnuna og steiktu áfram í um 2 mínútur.

Hrísgrjónunum er svo bætt út á pönnuna ásamt 900 ml af kjúklingasoðinu. Blandaðu þessu saman, settu lok á og láttu þetta malla á miðlungs hita í um 20 mínútur. Gott að hræra einu sinni í þessu eftir um 10 mínútur. Þegar 20 mínútur eru liðnar ættu hrísgrjónin að vera soðin. Blandaðu þá matreiðslurjómanum út í réttinn og berðu fram.

Gott að setja ferska basilíku yfir hvern disk ásamt rifnum parmesan osti. Með þessu er gott að hafa hvítlauksbrauð eða nan brauð ásamt fersku salati.