Vinsamlegast ath!

Á tax free getur verið lengri bið eftir pöntunum úr vefverslun vegna fjölda pantana.

13. Júní 2024

Dry aged Tomahawk með steikarsmjöri og sætkartöflu mac & cheese

Það var alvöru grillveisla hjá Matarmönnum þegar þeir grilluðu Tomahawk steik með heimalögðu steikarsmjöri og sætkartöflu mac & cheese. Hrikalega girnilegt og þeir segja að fólk verði að prófa þennan rétt. Hægt er að sjá myndband af því hvernig Matarmenn töfra fram þessa máltíð á Instagramsíðu Hagkaups.

Steikarsmjör:
300 gr smjör
Ólífuolía
1 hvítlaukur
2 msk hvítlauksduft
2/3 bolli steinselja
1 msk paprikuduft
2 vorlaukar
1 msk gróft Dijon
1 msk Dijon
Chili blanda eftir smekk
Salt eftir smekk

Aðferð:
Leyfið smjörinu að standa í stofuhita í minnst 3 klukkutíma. Hitið ofninn í 200°C. Skerið hvítlaukinn þvert, hellið ólífuolíu í sárið og stráið sjávarsalti yfir. Setjið nú hvítlaukinn í álpappír og inn í ofn í 35 mínútur eða þar til hann verður gullinbrúnn og mjúkur.

Smjörið er sett í skál og svo er bætt við hvítlauksdufti, paprikudufti, dijon sinnepi, chiliblöndu, salti, smátt skornum vorlauk og steinselju. Að lokum er bakaður hvítlaukurinn kreistur ofan í skálina. 

Blandið öllu saman með písk og setjið í butcher pappír, álpappír eða plastfilmu og geymið í ísskáp.

Sætkartöflu mac & Cheese
2/3 stór sæt kartafla
200 gr makkarónur
Ólífuolía
1 dl rjómi
1 msk tómatpaste
Salt eftir smekk
2 bollar rifinn mozarella
100 gr rifinn parmesan
1 msk nýkreist sítróna
Brauðteningar

Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Skerið sæta kartöflu til helminga og penslið sárin með ólífu olíu. Látið sárin snúa niður í eldföstu móti og bakið í 45 mínútur eða þar til kartaflan er orðin bökuð í gegn. Á pönnu skal setja bökuðu kartöfluna ásamt rjómanum og leyfið að malla saman í um 2 mínútur á miðlungsháum hita.

Sjóðið makkarónur eftir leiðbeiningum. Bætið nú á pönnuna tómatpaste-inu, ólífuolíu slettu, mozarella ostinum, salti, sítrónu og blandið saman. Næst koma makkarónurnar saman við og öllu er komið fyrir í eldföstu móti. Brjótið brauðteningana og stráið yfir eldfasta mótið og bakið á 200°C í 10 mínútur eða þar til teningarnir eru orðnir fallega brúnir.

Þegar rétturinn kemur úr ofninum er parmesan ostinum svo stráð yfir heitt fatið.