20. Janúar 2023

Góð heilsa er gulli betri

Það getur verið krefjandi að sannfæra sig um að breyta um lífsstíl í átt að betri heilsu. Ástæðan fyrir því er að árangurinn sést ekki alltaf markvisst og við erum ekki að uppskera fyrr en jafnvel mörgum áðum síðar. Það getur hljómað eins og langsótt markmið að fara í 30 mínútna göngutúr daglega því það muni gera okkur kleift að lifa lengur og vera heilsusamlegri í framtíðinni.

Það er samt einmitt það sem mælt er með að gera! Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að rifja upp reglulega, af hverju? Af hverju er gott að vera með góða heilsu á efri árum og hver eru markmiðin? Viljum við ferðast í framtíðinni, komast í sund eða fara út að ganga með hundinn?

Heilsa hefur áhrif á öll svið lífsins en við sjálf getum haft mikil áhrif á hana. Að viðhalda góðri heilsu er ekki aðeins gott fyrir almenna vellíðan, það hefur einnig áhrif á getu til að ná öðrum markmiðum hvort sem það er í vinnunni eða í fjölskyldulífinu. Markmið gefur fólki tækifæri til að íhuga hvar það stendur, hvað það vill og hvernig á að komast þangað.

Flestir vilja aukið heilbrigði en vita jafnvel ekki hvar á að byrja. Á nýju ári er betra að huga að framförum en ekki fullkomnun, þar sem bestu heilsusamlegu breytingarnar eru þær sem þú getur viðhaldið til æviloka. Dæmi um raunhæf og skemmtileg markmið sem stuðla að heilsusamlegum lífsstíl:

  • Byrja daginn með góðri rútínu, t.d. lesa blaðið, hlusta á hlaðvarp eða hugleiða.
  • Eyða minni tíma sitjandi. Líkaminn er gerður fyrir hreyfingu og gott er að standa upp reglulega, sérstaklega þau sem vinna við skrifborð.
  • Gefa sér tíma til að borða hollan mat, vera í núvitund og njóta stundarinnar.
  • Kröftug ganga í tíu mínútur á dag getur bætt blóðrásina, aukið vellíðan og bætt svefninn.
  • Teygjur geta hjálpað til við að bæta sveigjanleika og hreyfisvið og draga þannig úr hættu á meiðslum.
  • Upplifa náttúruna og njóta þess að vera utandyra, jafnvel þótt það sé kalt.
  • Við erum öll upptekin en árið 2023 er gott markmið að gefa sér tíma til að rækta sambönd. Góð sambönd stuðla að hamingjusamara lífi.

Höfundur: Helga María