9. Desember 2022
Hagkaup í stórsókn á vefnum og kynnir Hagga nýjan góðvin Hagkaups til leiks
Hagkaup hefur opnað eina stærstu leikfangaverslun landsins á netinu og kynnti til leiks Hagga, góðvin Hagkaups sem mun gegna mikilvægu hlutverki í versluninni. Yfir fjögur þúsund vörumerki frá stærstu leikfangaframleiðendum heims má finna á nýju leikfangasíðunni og sífellt bætast við ný vörunúmer.
Fyrir nokkrum mánuðum fór í loftið snyrtivöruverslun Hagkaups á netinu og nú er það leikfangasíðan. Á næstu mánuðum bætast við nýir flokkar og nýjungar á vefsíðunni og er þetta liður í nýju vegferð Hagkaups.
„Við opnuðum á dögunum glænýja leikfangasíðu með okkar glæsilega úrvali og við erum gríðarlega stolt af þessari síðu. Við kappkostum við að byggja upp flotta vefsíðu með fjölbreyttu úrvali, nú erum við komin með frábæran grunn sem við höldum áfram að byggja ofan á á komandi mánuðum. Við tókum í fyrsta sinn þátt í vinsælum tilboðsdögum nú í nóvember og viðtökurnar fóru vægast sagt fram úr vonum. Við tókum á móti hátt í tíu þúsund pöntunum sem var vissulega þolraun á vefsíðuna. Þessi fjöldi pantana var mikil áskorun og við unnum dag og nótt. Það er margt sem betur mátti fara og við lærðum mjög margt af þessum tilboðsdögum, við erum að setja upp nýja ferla og gera enn betur til þess að þjónusta okkar viðskiptavini. Við viljum í leiðinni þakka okkar frábæru viðskiptavinum fyrir skilning og þolinmæði“.
„Samhliða opnun nýrrar vefsíðu kynntum við Hagga til leiks en hann er nýr góðvinur Hagkaups og mun gegna mikilvægu hlutverki hjá okkur. Hann mun eiga hreiður í verslunum okkar eftir áramót og hans hlutverk er að skemmta og fræða yngri kynslóðina. Við hlökkum til að kynna hann betur til leiks í tengslum við ný og spennandi verkefni.“ Segir Sigurður Reyndaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups.