20. September 2024

Kalkúnabollur í kókos lime sósu

Helga Magga bjó til þessar kalkúnabollur sem hún segir vera svo góðar og kókos lime sósan enn betri. Þær eru svolítið sterkar með ferskum chilí en það má vel sleppa ferska chillíinu ef þú ert með ung börn. Sósan er líka sterk en hægt að gera hana minna sterka með því að nota minna af red curry mauki. Hún var með brún hrísgrjón með réttinum en það er einnig hægt að hafa pasta með þessum rétti eða bankabygg.

Innihald:

600 gr kalkúnahakk
2 stk brauðsneiðar / 70 g
1 kúrbítur rifinn / 200 g
1 egg
Hálft ferskt chilí (má sleppa)
2 hvítlauksrif rifin
1 tsk rifið engifer
1 msk soyasósa
2 blaðlaukar skornir smátt
Börkur af lime rifinn
Ferskur kóríander eftir smekk
Salt og pipar

Sósan

1 msk red curry paste
1 dós létt kókosmjólk
2 hvítlauksrif rifin
2 blaðlaukar
1 tsk engifer rifið
1 msk soyasósa
1 msk akasíuhunang
2 tsk better than bouillon kjúklingakraftur
1 dl vatn
Safi úr lime
1 paprika rifin þunnt

Kalkúnahakkið er keypt frosið og oft ef ég er á síðustu stundu þá læt ég það liggja í stofuheitu vatni þá þiðnar það hraðar. Öll innihaldsefnin eru sett í skál og blandað saman. Kúrbíturinn er rifinn smátt og vatnið kreist úr honum. Tvær brauðsneiðar ristaðar og maukaðar í blandara svo þær verði að brauðmylsnu. Því næst er öllu hrært saman í hrærivél (eða höndunum) og litlar bollur mótaðar.

Bollurnar eru settar á bökunarplötu og hitaðar við 190 gráður í 25 mínútur.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan búin til og hrísgrjónin soðin um leið. Innihaldsefnin eru sett út á pönnuna og sósan látin hitna á vægum hita í nokkrar mínútur. Í lokin er svo paprikan sett út í sósuna í þunnum sneiðum. Mér finnst best að skera hana með grænmetisskera. Þegar bollurnar eru tilbúnar eru þær svo settar út á pönnuna. Gott að setja ferskan kóríander yfir réttinn í lokinn.

Sósan er frekar þunn, hægt að þykkja hana með því að nota venjulega kókosmjólk eða þykkja með sósuþykkjara.