28. Febrúar 2025
Salan á Mottumarssokkunum er hafin
Í Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, tökum við höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og öflum um leið fjár fyrir mikilvægri starfsemi Krabbameinsfélagsins. Hagkaup er stoltur söluaðili að sokkunum og er hægt að kaupa sokkana í öllum verslunum okkar og hér í vefverslun.
Á hverju ári framleiðir og selur Krabbameinsfélagið Mottumars sokka með nýrri hönnun. Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Hann var fjölhæfur og framtakssamur tónlistarmaður, myndlistarmaður, hönnuður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi.
Við hvetjum fólk til að taka höndum saman, styrkja þetta verðuga málefni og klæðast þessum skemmtilegu og fallegu sokkum.