Vinsamlegast ath!

Veisluréttir eru uppseldir laugardaginn 15. júní
22. júní er að fyllast og við hvetjum fólk til þess að panta sem fyrst

31. Janúar 2023

Stefnur og straumar 2023

Í byrjun hvers árs og jafnvel í lok ársins á undan setjast sérfræðingar og áhugafólk niður og spá í straumum og stefnum næsta árs í hinum ýmsu greinum sem tengjast tískunni. Það á svo sannarlega líka við um hár, förðun og húðumhirðu sérfræðinga en það vill svo skemmtilega til að ég er búin að setjast yfir hvað þessir snillingar hafa um málin að segja og ætla að deila helstu „trendum“ ársins 2023 með ykkur.

Húðumhirða:
Sem betur fer er húðumhirða mikið í tísku en í fyrra fór húðumhirða fyrir líkamann að fylgja meira með en áður. Það sama verður uppi á teningnum þetta árið ef marka má spár sérfræðinga á sviðinu. Mikið um húðvörur með nærandi innihaldsefnum og áfram mikið um notkun á hinum ýmsu sýrum, bæði fyrir andlit og líkama. Innihaldsefnið peptíð hefur verið að koma svolítið í tísku á undanförnum árum og verður mjög sterkt í húðumhirðu og jafnvel varaumhirðu vörum næsta árið.

Það sem flestir sérfræðingar töluðu um var að straumarnir myndu líklega leiða fólk til þess að einfalda örlítið húðrútínurnar sínar, nota færri vörur sem sinna jafnvel fleiri þáttum en áður, svona vörur með fleiri en einn tilgang eða ávinning fyrir húðina. Einnig virðist vera sem sérfæðingar hafi trú á því að við verðum enn meðvitaðri um að laða húðrútínuna að þörfum húðarinnar okkar en ekki annarra og jafnvel að þörfum húðarinnar hverju sinni, sem í mínum huga er frábært því það sem virkar fyrir mína húð virkar alls ekkert endilega fyrir þína!

En húðumhirða verður semsagt ennþá hipp og kúl árið 2023 og því er vissulega vert að fagna.

Förðun:
Ég elska að förðunar „trendin“ sem verða við völd í ár eru svo ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg sem ætti að gera það að verkum að flest ættu að finna sér eitthvað við hæfi. Svo er ég þannig að mér finnst að förðun hafi í rauninni engar reglur, það sé bara allra flottast að vera nákvæmlega eins og manni langar. En sérfræðingar segja okkur að „ber húð“ sé að koma mikið í tísku þ.e.a.s. að farða sig með léttari förðum og vörum sem jafnvel innihalda bæði förðunarvöru og húðbætandi eiginleika.
Stórar og fluffy augabrúnir verða áfram í tísku og í rauninni verður það svolítið inn að setja áherslu á augabrúnirnar.
Hvað varðar augnförðun segja sérfræðingar að það verði allskonar í tísku, við erum svolítið að sjá 90‘s og 2000‘s koma aftur með ófullkomnum augnblýöntum og svolítið svona „messy“ augnförðun. Litir eru líka að koma mikið inn og þá jafnvel í frekar kaldari tónum en þeir sem hafa verið síðustu ár. Svo má ekki gleyma að steinar og skemmtilegir aukahlutir halda áfram að ryðja sér til rúms á þessu ári.

Það getur verið mjög skemmtilegt að kafa vel í því sem sérfræðingar sjá fyrir sér í tískunni fyrir árið, en það hafa margir skoðanir og fæstir þær sömu. Ég tók því bara saman nokkur atriði sem ég sá flesta taka fyrir og mér finnst spennandi. Svo er auðvitað bara alltaf í tísku að vera maður sjálfur og gera það sem manni sjálfum finnst fara sér eða vera flott. Ég hlakka til að prófa nokkur af þessum „trendum“ og sjá hvort þau henti mér eða ekki!

Höfundur: Lilja Gísladóttir fyrir Hagkaup