1. Desember 2023
Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik
Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.
Finndu sniðuga útfærslu á því hvernig bera megi fram grænmeti og/eða ávexti og ber á jólalegan og nýstárlegan hátt. Gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.
Framsetning er frjáls en getur t.d. verið meðlæti á veisluborð, skemmtilega framsettur veislubakki eða máltíð eða bara hvaðeina sem þér dettur í hug.
Vinningar verða veittir fyrir þrjú efstu sætin:
- 1. sæti: Bananar gefa 60.000 kr. peningaverðlaun ásamt ávaxtakörfu og Hagkaup gefur gjafabréf að upphæð 40.000 kr.
- 2. sæti: Bananar gefa 25.000 kr. peningaverðlaun ásamt ávaxtakörfu og Hagkaup gefur gjafabréf að upphæð 25.000 kr.
- 3. sæti: Bananar gefa 15.000 kr. peningaverðlaun ásamt ávaxtakörfu og Hagkaup gefur gjafabréf að upphæð 15.000 kr.
Einnig verða veitt nokkur aukaverðlaun frá Lemon fyrir skemmtilegar útfærslur.
Reglur:
Nota má hvaða grænmeti, ávexti og ber sem er. Til að festa hluti saman má nota grillprjóna og tannstöngla. Einnig má nota hummus og þeyttan rjóma sem ,,lím“ eða til skreytinga. Flatarmál disks eða bakka má ekki vera meira en 50 x 40 cm.
Hvað þarft þú að gera til að vera með:
- Skrá þig til leiks á jol@krabb.is fyrir miðnætti 7. desember.
- Skila þínu framlagi í Hagkaup Smáralind þann 9. desember, milli kl. 11:00 og 12:00, ásamt innihaldslýsingu. Úrslit verða kynnt kl. 13:00. Að því loknu taka keppendur sína diska með heim.
Dómnefnd skipa:
- Eva Laufey Kjaran, markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups, formaður dómnefndar
- Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu.
- Eva Ruza, skemmtikraftur
- Sjöfn Þórðardóttir, umsjónarmaður matarvefs Mbl.is.
Krabbameinsfélagið, Bananar og Hagkaup áskilja sér rétt til að deila uppskriftum og myndum á miðlum sínum.