Uppskriftir

Einfaldur ­kökubotn með jarðarberjakremi

2½ dl hrísgrjónamjólk eða hvaða önnur mjólk sem er
1½ dl agavesíróp – má nota hlynsíróp eða hrásykur
¾ dl kaldpressuð kókosolía (látið krukkuna standa við stofuhita yfir nótt)
1 tsk vanilla – duft eða dropar
2½ dl spelt, t.d. fínt og gróft til helminga
¾ dl kakóduft
1½ tsk vínsteinslyftiduft
¼ tsk salt
Jarðarberjakrem:
1½ dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti
10 stk lífrænar döðlur, smátt saxaðar
1 msk kókosolía
150 g jarðarber – má nota frosin (en látið þau þiðna fyrst)
1 tsk vanilla
1 msk límónusafi
1 tsk rifið límónuhýði

Kakan: Hitið ofninn í 180°C. Setjið mjólkina í matvinnsluvél ásamt agavesírópi og kókosolíu og hrærið létt saman. Setjið restina af uppskriftinni út í og hrærið þar til þetta er alveg kekkjalaust, tekur bara smá stund. Setjið í hringlaga form – 23 eða 26 cm í þvermál og bakið í um 18–20 mín. eða þar til alveg gegnum bakað.
Krem:Allt sett í matvinnsluvél og maukað saman þar til alveg silkimjúkt. Látið inn í ísskáp í 15–30 mín. áður en þið smyrjið því á kökuna.