19. September 2023

Fyrsta netverslun landsins

Þann 19. nóvember 1998 opnaði Hagkaup netverslun með bækur, geisladiska og myndbandsspólur, í samstarfi við vísir.is.

Verslunin var opnuð með viðhöfn og boðið upp á sérstök nettilboð fyrstu tvo sólarhringana. Þannig var hægt að tryggja sér eintak af ævisögu Steingríms Hermannssonar á tilboði, sem og Arfa, geislaplötu Bubba Morthens og myndband með stórmyndinni Titanic. Hafa þessir gripir vafalítið ratað í ófáa jólapakkana um hátíðarnar 1998.

Greitt var fyrir vörurnar með kreditkorti í gegnum netverslunina og þær síðan sendar heim með Póstinum gegn sendingargjaldi, rétt eins og í dag. En þó er gaman að geta þess að í frétt DV frá opnunardeginum er sérstaklega tekið fram að til að versla í gegnum netverslunina þurfi að byrja á því að „fara inn á Internetið“. Slíkar leiðbeiningar eru vitaskuld óþarfar nú til dags, en voru algjörlega nauðsynlegar í árdaga netverslunar, neytendum til hægðarauka.