9. Desember 2025

Hörpuskel ceviche, Laxa carpaccio og hreindýralundir

Ragnhildur Sveinsdóttir, alla jafna kölluð Ragga fótboltamamman, og Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, eru gestir í nýjasta þætti af Jólagestum og gefa áhorfendum uppskriftir að forréttum og aðalrétti sem þau halda upp á. Þau leiða saman krafta sína í fyrsta skipti í eldhúsinu hjá Sjöfn og fara á kostum í þættinum. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.

„Ferskur fiskur ceviche er eitt af mínu uppáhaldi. Í þessu tilfelli nota ég hörpuskel og ber hana fram með suðuramerískum hætti,“ segir Þórir og mundar hnífinn.

Ragga sér um að elda aðalréttinn og býður upp á hreindýralundir og meðlæti. „Við erum yfirleitt með hreindýralundir og rjúpubringu á jólunum. Við grillum villibráðina og gerum gott meðlæti með. Ég nota ekki sósur en ef einhver vill sósu með, þá kaupi ég gjarnan tilbúnar sósur í Hagkaup og annaðhvort villibráðar- eða villisveppasósuna,“ segir Ragga, en hún notar yfirleitt góðar ólífuolíur í stað þess að vera með sósur.

Sjáið Þóri leika listir sínar með hnífinn í eldhúsinu, hann segir að æfingin skapi meistarann.

Hörpuskel ceviche - fyrir 4
6 miðlungsstórar hörpuskeljar
2 límónur
1 chilipipar
2 vorlaukar
Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
Skerið hörpuskelina í þunnar sneiðar. Skerið chilipipar og vorlauk í þunnar sneiðar. Pressið síðan safann úr límónunum. Takið til passlega stóra skál. Setjið allt hráefnið út í og kryddið til með salti og pipar eftir smekk. Blandið saman og látið standa í kæli um það bil klukkustund. Takið til 4 forréttadiska, setjið fallega fram á diskana og skreytið með salati. Berið fram og njótið.

Laxa carpaccio
1 biti lax, skorinn í örþunnar sneiðar
Ristaðar furuhnetur eftir smekk
Ólífuolía
Klettasalat
Feykir ostur
Flögusalt og svartur pipar eftir smekk

Aðferð:
Skerið laxinn í þunna, fallega bita. Raðið á fjóra diska og kryddið til með örlitlu flögusalti og pipar. Setjið síðan klettasalat létt yfir, setjið því næst furuhnetur ofan á og dreifið síðan smá olíu yfir. Dreifið að lokum rifnum feyki yfir. Berið fram og njótið.

Hreindýralundir bornar fram með rótargrænmeti, kartöfluskífum, rósakáli og Waldorf-salati - fyrir 3–4

Hreindýralundir
800–1000 g hreindýralundir (200–250 g á mann)
Truflumarínering frá Hagkaup

Aðferð:
Byrjið á að marínera hreindýralundir í 1–2 klst. fyrir steikingu eða grill. Setjið á funheita pönnu eða grill og steikið í 2 mínútur á hvorri hlið. Setjið síðan í álpappír og látið hvíla þar í stutta stund.

Rótargrænmeti
1 stór kartafla
1 rauðrófa
Ólífuolía
Salt og pipar eftir smekk
Ferskt rósmarín eftir smekk

Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 200°C. Skerið sætu kartöflurnar og rauðrófurnar og setjið í skál. Setjið síðan ólífuolíu yfir og kryddið til með salti og pipar eftir smekk. Dreifið loks fersku rósmarín yfir. Setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakið í um það bil 20–25 mínútur eða þar til rótargrænmetið er stökkt að utan og mjúkt að innan.

Kartöfluskífur
2 stk. bökunarkartöflur
Ólífuolía eftir þörfum
Salt og pipar eftir smekk
Parmesanostur eftir smekk

Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 200°C. Skerið kartöflurnar í örþunnar sneiðar. Setjið í skál og sáldrið ólífuolíu yfir sneiðarnar og kryddið til með salti og pipar. Setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreifið parmesanosti yfir í lokin. Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til þær verða stökkar að utan.

Rósakál
1 pk. rósakál
Hunang eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk
Parmesanostur eftir smekk

Aðferð:
Byrjið á því að taka ystu blöðin af rósakálinu. Hitið ofninn í 200°C. Takið til ofnplötu og klæðið með bökunarpappír. Skerið rósakálið í helminga og setjið á bökunarpappírinn. Blandið saman ólífuolíu og hunangi eftir smekk í skál eða könnu. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið yfir rósakálið og dreifið parmesanosti yfir. Setjið inn í ofn og bakið í 20–25 mínútur eða þar til rósakálið er farið að taka lit.

Waldorf-salat með súkkulaðispæni
2 græn epli
Vínber eftir smekk eða einn vínberjaklasi
½ lítri rjómi
100 g pekanhnetur
Dökkt súkkulaði ef vill

Aðferð:
Byrjið á því að skera niður eplin í bita og vínberin til helminga. Setjið í meðalstóra skál. Skerið nokkrar pekanhnetur og setjið út í skálina. Léttþeytið rjómann og passið að þeyta hann ekki of mikið. Setjið síðan rjómann í skál og bætið út í hinu hráefninu. Blandið varlega saman með sleikju. Skreytið salatið með rifnu súkkulaði rétt áður en það er borið fram.

Smelltu hér til að sjá myndband