6. Maí 2025
Jordbærtærte
Það eru danskir dagar í Hagkaup 2-11.maí og Berglind hjá Gotterí og gersemum segir það fyrsta sem poppaði upp í hugann undir dönskum áhrifum var að prófa að útbúa jarðarberjatart eins og hjá Lagkagehuset. „Ég elska marsípan og jarðarber svo það var aldrei spurning um annað en að smakka slíka köku þegar við Inga vinkona fórum til Köben í fyrra. Ég er síðan búin að ætla að leika hana eftir lengi og loksins kom að því! Ekki láta skrefin í uppskriftinni hræða ykkur, þetta er ekkert mál, bara byrja!“
Smjördeigsbotn
150 g hveiti
100 g smjör (kalt)
1 msk. flórsykur
1 egg
¼ tsk. salt
Skerið smjörið í teninga og setjið allt saman í skál. Hnoðið saman með höndunum eða með K-inu í hrærivélinni þar til blandað saman. Smyrjið eldfast mót/kökuform að innan með smjöri og þjappið deiginu síðan í botninn og upp hliðarnar. Einnig er hægt að kæla deigið í um klukkustund og fletja það út ef þið kjósið heldur að gera það þannig. Kælið í ísskáp á meðan þið útbúið marsípanfyllinguna en gatið þó deigið með gaffli áður en þið hellið henni ofan á botninn.
Marsípanfylling + súkkulaðiskel
200 g marsípan
100 g sykur
100 g smjör (við stofuhita)
2 egg
50 g hveiti
70 g suðusúkkulaði
Hitið ofninn í 180°C. Hnoðið marsípan, sykur og smjör saman í hrærivélinni (með K-inu) og bætið síðan eggjunum saman við einu í einu. Að lokum má sigta hveitið saman við og hræra vel saman, smyrjið síðan yfir gataðan smjördeigsbotninn. Bakið í 23-25 mínútur og leyfið að kólna. Bræðið suðusúkkulaðið og smyrjið því yfir og kælið áður en vanillurjóminn fer ofan á. Þetta er gert til þess þess að kakan blotni ekki of mikið þegar vanillurjóminn er settur ofan á, svo gerir súkkulaði auðvitað allt betra.
Vanillurjómi + skreyting
250 ml nýmjólk
40 g sykur
1 egg
2 tsk. vanilla bean extract (eða vanillusykur)
1 msk. kartöflumjöl
250 ml rjómi (þeyttur)
Um 300 g jarðarber
Setjið mjólk, sykur, egg, vanillu og kartöflumjöl saman í pott og hitið að suðu. Pískið stanslaust í pottinum á meðan blandan er að hitna, þegar hún fer að nálgast suðu þykknar hún og þá megið þið taka af hellunni og færa yfir í skál og kæla í ísskáp. Blandan ætti að þykkna þannig að hún minni á þykkan jafning áður en þið takið af hitanum. Kælið blönduna alveg og blandið henni síðan saman við þeytta rjómann. Smyrjið nú vanillurjómanum yfir súkkulaðið og toppið með ferskum jarðarberjum.