14. Október 2022

Lærðu að móta andlitið

Það hefur verið mikið í tísku undanfarin ár að nota miklar og skarpar skyggingar á andlitið. Það hefur þó aðeins farið minna fyrir því upp á síðkastið en í dag er mikið um fallega létta skyggingu eða að gefa andlitinu smá hlýju á „réttum stöðum“ og nota svo vel af kinnalit til þess að kalla fram fallegt sólkysst útlit. Ég er engin undantekning og ég elska svo sannarlega þetta sólkyssta útlit og ég er mjög hrifin af því að nota krem vörur til þess að ná því fram!

Mig langar að segja ykkur frá 3 vörum sem ég nota mikið til þess að ná fram mjög ljómandi og fallegu sólkysstu útliti!

Til þess að fá hlýju í andlitið elska ég Teint Idol Ultra Wear Stick Foundation frá Lancome. Ég nota stiftið annað hvort í lit 5 eða 6, eftir því í hvernig skapi ég er! Þetta er bara farða stifti sem ég nota í dekkri lit en mínum húðlit til þess að ná fram smá skyggingu og hlýju í andlitið. Mér finnst best að setja smá vegis af vörunni í lófann til þess að mýkja hana og hlýja aðeins svo hún blandist betur á andlitinu. Ég set þessa vöru á þau svæði sem ég myndi almennt setja sólarpúður, á og aðeins undir kinnbeinið og örlítið á enni alveg við hárlínuna og svo síðast en ekki síst örlítið á kjálkalínuna. Byrja á því að nota lítið af vöru annað hvort í bursta eða rakann förðunarsvamp.

Svo kemur að ljóma og kinnalit, fyrir mér er engin förðun fullkomnuð fyrr en kinnaliturinn er kominn á. Halo Sheer to Stay Color Tint frá eru nýir krem kinna- og varalitir sem ég hef nýlega fallið fyrir. Ég á þessa vöru í þremur litum og þeir eru dásamlegir! Varan þornar mött og gefur fallega miðlungs þekju, svo lítið magn kemur þér virkilega langt með þessari. Litaúrvalið er mjög gott svo það ættu flest að geta fundið lit við hæfi.

Ef ég vil ekki mattan kinnalit þá blanda ég þessari elsku saman við örlítið af Glow Cream frá Erborian og þá er komin allt annar blær á vöruna, ljómandi og örlítið léttari þekja! Glow Cream er annars líka fullkomið undir farðann til þess að fá þennan ljóma að innan sem við öll þráum og elskum, ekki satt? 

Kinnalitinn set ég á kinnarnar, eins og kannski segir sig örlítið sjálft en ég set hann frekar ofarlega á kinnarnar, ekki á þessi svo kölluðu „epli“ sem eru rétt við nefið heldur frekar á kinnbeinið, eða örlítið ofan við það og blanda litnum alveg upp að gagnauga og jafnvel upp að augabrún ef ég er í miklu stuði. Svo er voða sætt að setja örlítið yfir nefið til þess að fullkomna lúkkið.

 

Það eru margir hræddir við krem skyggingu og kinnaliti, en ég segi að hér sé ekkert að óttast! Byrja á litlu magni og bæta svo frekar í, það er líka alltaf hægt að „stroka út“ mistök með því að blanda vörunni enn betur með rökum förðunar svampi eða hreinlega nota smá hyljara eða farða til að „mála yfir mistökin“.

Höfundur: Lilja Gísladóttir fyrir Hagkaup