22. Janúar 2025

SMART markmið með Söndru Helgadóttur

Sandra er stofnandi og eigandi Absolute Training á Íslandi.  Sandra hefur reglulega sótt námskeið hjá Dale Carnegie og tók síðar þjálfararéttindi Dale Carnegie 25 ára gömul. Í dag starfar hún sem þjálfari og fyrirlesari hjá KVAN þar sem hún þjálfar fólk í að setja sér markmið, hugsa jákvætt og hindurnarlaust. Sjálf hefur hún mikinn áhuga á því að setja sér háleit markmið og þjálfa hugann í því að hugsa stórt. 

SMART markmiðaformúlan er frábær til þess að tryggja það að við séum að setja markmið sem auðvelt er að bæði vinna eftir og fylgja eftir hvort við séum búin að ná. Það getur tekið tíma að venjast því að setja markmiðin inn í SMART formúluna, en þegar það er komið í venju þá er nánast erfitt að komast hjá því. 

SMART stendur fyrir það að setja sér Skýr, Mælanleg, Aðlaðandi, Raunhæf og Tímasett markmið. Ef við skoðum hvað hvert orð stendur fyrir, þá skýrist þetta vel.

Skýr markmið eru markmið sem þú ættir nánast ekki að vera með neinar spurningar um eftir að hafa sett þau. Til dæmis ef markmiðið þitt er að æfa þrisvar sinnum í viku gætu vaknað spurningar eins og “Hvaða daga á ég að æfa?”, “Hvaða æfingar ætti ég að taka á æfingunni?”, “Ætti ég að fara með einhverjum á æfingu?”. Með því að vera búin að svara þessum spurningum í markmiðasetningunni, ertu að margfalda líkurnar á að þú standir við markmiðið. Þannig væri markmiðið að æfa þrisvar sinnum í vikunni orðið töluvert skýrara ef ég myndi segja, ég ætla að æfa mánudag, miðvikudag og föstudag klukkan 17:00. Ég ætla að fylgja styrktarprógrammi á mánudögum, fara í spinning með pabba á miðvikudögum og jóga með vinkonu minni á föstudögum. Því skýrara sem markmiðið er, því meiri líkur eru á að þú náir markmiðinu.

Mælanleg markmið eru markmið sem eru laus við lýsingarorð og innihalda í staðinn mælieiningu. Við viljum forðast að setja okkur markmið eins og “Ég ætla að vera dugleg að hreyfa mig, lesa meira á þessu ári, drekka mikið vatn og fara snemma að sofa”. Betra væri að setja mælieiningu á markmiðin og sjá hvernig okkur gengur út frá því. Þá væru markmiðin til dæmis “Ég ætla að hreyfa mig þrisvar sinnum í viku, lesa 10 blaðsíður á dag, drekka 2 lítra af vatni og vera komin upp í rúm fyrir kl. 12 á kvöldin.” Hafðu í huga að þú vilt alltaf geta svarað því með já eða nei hvort þú hafir náð markmiðinu þínu, það er frekar erfitt ef það er ekki mælieining á markmiðinu. 

Aðlaðandi markmið eru markmið sem þig langar til að ná. Settu þér markmið sem þú þráir að ná og ert tilbúin/nn að leggja margt á þig til að ná. Hafðu einnig í huga að leiðin í átt að markmiðinu getur verið krefjandi og ekkert endilega alltaf aðlaðandi, en lokaútkoma markmiðsins þarf að vera aðlaðandi til að við séum tilbúin að leggja það á okkur. Til dæmis ef mig langar að safna mér fyrir flottum bíl, þá þarf ég að vinna fyrir honum og leggja pening til hliðar. Það er ekkert alltaf gaman að vinna mikið og heldur ekkert alltaf gaman að neita sér um nýja flotta hluti, en ef það er fyrir flotta bílnum sem mig dreymir um, þá er ég tilbúin að vinna mikið, taka aukavaktir, vakna fyrr, vinna lengur og sleppa því að kaupa mér hitt og þetta, því ég veit að það verður miklu skemmilegra þegar ég á svo efni á drauma bílnum.

Raunhæf markmið eru markmið sem þú treystir þér til að standa við í þeim aðstæðum sem þú ert í hverju sinni. Við förum í gegnum allskonar tímabil í lífinu og aðstæður breytast. Þú getur mögulega ekki sett þér sama markmið og þú settir þér fyrir 5 árum því aðstæður eru allt aðrar. Það er því gott að minna sig á það í markmiðasetningu að hafa markmiðin raunhæf út frá okkar aðstæðum. Þetta minnir okkur einnig á að miða okkur ekki við aðra, heldur okkur sjálf. Þegar þú setur þér langtímamarkmið, hvet ég þig til þess að setja þennan hluta af SMART inn í sviga, því ég hvet þig til að hugsa stórt og leyfa þér að láta þig dreyma, ekki setja takmarkanir á hvað þú getur. Þegar þú ert hinsvegar að setja þér markmið fyrir vikuna og mánuðinn, þá myndi ég brjóta markmiðin vel niður í lítil skref og taka raunhæf skref í átt að stóru draumunum. Ef þú stundar það að setja þér lítil raunhæf markmið í hverri viku, í átt að stórum háleitum langtíma markmiðum, þá allt í einu verður þú komin/nn þangað, nánast án þess að átta þig á hvernig. 

Tímasett markmið eru markmið með tímamörk. Við þekkjum flest einhverja sem segja okkur frá markmiði sem þau dreymdu um að ná. Það hljómar oft svona “Ég ætlaði nú alltaf að hlaupa maraþon, en hef svo ekkert látið af því verða”, eða “Mig langaði nú alltaf að flytja til útlanda, svo varð nú ekkert úr því”. Þetta eru gjarnan markmið sem fólk hefur sett sér en aldrei sett tímasetningu á þau. Ef við erum ekki með tímamörk á markmiðunum okkar, þá eru mun meiri líkur á því að við leyfum tímanum að líða án þess að byrja að taka fyrstu skrefin í áttina að þeim.

Til að byrja árið 2025 hvet ég þig til þess að setja þér 1-3 markmið SMART markmið fyrir árið. Þegar þú ert komin/nn með þessi markmið, byrjaðu þá á að brjóta þau niður og skoða hvað þú ætlar að gera strax í þessari viku til að koma þér nær þessum markmiðum.

Gangi þér sem allra best að huga að heilsunni og ná markmiðum þínum árið 2025!

Mundu að þú getur allt sem þú ætlar þér. 

Peppkveðjur, 
Sandra Helga