2. Desember 2025

Þetta er jólamáltíðin sem fær alla til að biðja um uppskriftina

Í jólaþáttunum Jólagestir á Matarvefnum, í samstarfi við Hagkaup, fær Sjöfn Þórðardóttir til sín góða gesti í heimsókn í eldhúsið sem galdra fram jóla- og áramótakrásir af ýmsu tagi sem allir geta leikið eftir. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.

Andrés Björgvinsson, landsliðskokkur, er gestur Sjafnar í næsta þætti og deilir með áhorfendum einni af sínum uppáhaldsjólamáltíðum, bæði forrétti og aðalrétti. Hann byrjar á forrétti sem bráðnar í munni í andakrókettu sem borin er fram á aðlaðandi hátt. Hann galdrar síðan fram smjörsprautað kalkúnaskip sem hann ber fram með sætkartöflupæ, jólarósakáli með beikoni, jólarauðkáli og hátíðarsælkerasósu. Hann gefur áhorfendum góð ráð þegar matreiða skal hátíðarkvöldverð sem fangar bæði augu og munn.

„Mér finnst smjörsprautaða kalkúnaskipið algjör snilld, það er svo einfalt að elda það og það getur ekki klikkað með góðu meðlæti eins og þessu,“ segir Andrés um hátíðarkvöldverðinn sinn.

„Þetta er jólamáltíðin sem fær alla til að biðja um uppskriftina,“ segir Sjöfn eftir smakkið á kræsingunum hjá Andrési.

Kalkúnaskip
Smjörsprautað kalkúnaskip frá Hagkaup
150 g smjör
1 hvítlauksrif, rifið
2 tsk. hunang eða hlynsíróp
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. púðursykur
½ tsk. svartur pipar
½ tsk. kanill
¼ tsk. negull (malaður)
½ tsk. þurrkað timjan
Börkur af 1 appelsínu

Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C (blástur) og hafið kalkúnaskipið við stofuhita áður en það fer í ofninn. Bræðið smjörið og hrærið saman við hvítlauk, hunang, krydd og appelsínubörk. Penslið eða sprautið smjörblöndunni ríkulega yfir kalkúnaskipið og setjið í eldfast mót. Setjið inn í ofn og bakið í 50–60 mínútur eða þar til kjarnhitinn hefur náð 72°C. Ef þið eigið kjöthitamæli eða eruð með innbyggðan í ofninum ykkar skuluð þið endilega nota hann. Penslið einu sinni eða tvisvar yfir kalkúninn með smjörinu á meðan hann bakast til að fá fallegan gljáa. Látið hann síðan hvíla í 10–15 mínútur áður en þið berið hann fram.

Brún hátíðarsósa
Íslandssósur – Brún sælkerasósa
350 ml kjúklingasoð
1 stk. kanilstöng
2 stk. anístjörnur
1 tsk. kardimommudropar
Safi úr 1 appelsínu

Aðferð:
Setjið kjúklingasoðið og kryddin í pott og látið sjóða niður um helming. Sigtið kryddin frá og bætið síðan Brúnni sælkerasósu frá Hagkaup út í. Klárið sósuna með smá appelsínusafa og þykkið hana lítillega með maizena-mjöli ef þörf krefur.

Sæt kartöflupæ
1 kg sætar kartöflur
3 egg
200 g brætt smjör
200 g púðursykur
80 ml rjómi
1 tsk. salt

Aðferð:
Bakið sætu kartöflurnar heilar við 180°C í eina klukkustund eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Takið innan úr sætum kartöflunum og setjið í hrærivélaskál ásamt rest af hráefnunum. Hrærið þar til blandan verður slétt og létt. Setjið í smurt eldfast mót eða bökuform og bakið við 170°C í 18–20 mínútur, þar til blandan hefur stífnað örlítið.

Stökk pecanhnetukröns
100 g kornflex
100 g púðursykur
100 g smjör
50 g heslihnetur
50 g pekanhnetur

Aðferð:
Ristið hneturnar við 180°C í 10 mínútur og myljið gróflega. Bræðið saman smjör og púðursykur í potti þar til það verður karamellulíkt. Hellið yfir kornflex og hnetur í skál og hrærið vel saman áður en karamellan stífnar. Dreifið yfir sætkartöflupæið þegar það kemur úr ofninum og bakið aftur í 5–7 mínútur eða þar til toppurinn verður stökkur og gylltur.

Jólarósakál með beikoni
600 g rósakál
150 g beikon, skorið í litla bita
1 msk. smjör
1 msk. ólífuolía
1 msk. hunang eða hlynsíróp
1 tsk. Dijon-sinnep (valfrjálst)
Börkur og safi úr ½ appelsínu

Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C (blástur). Skerið rósakálið í helming og veltið því upp úr ólífuolíu, smjöri, salti og pipar. Setjið í eldfast mót eða á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakið í 20–25 mínútur eða þar til kálið verður gullbrúnt og karamelluserað. Steikið beikon þar til það er stökkt, bætið við hunangi, Dijon-sinnepi og appelsínusafa og blandið rósakálinu saman við á pönnunni. Setjið síðan í fat eða skál og berið fram.

Jólarauðkál
1 haus rauðkál (ca. 800 g), fínt sneiddur
1 stórt epli, rifið
3 msk. rauðvínsedik
150 ml rauðvín
2 msk. rifsberjasulta
2 msk. púðursykur
2 negulnaglar
1 stk. stjörnuanís
½ tsk. heil piparkorn
1 lárviðarlauf
1 msk. smjör eða olía
Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
Sneiðið rauðkálið fínt og setjið í pott með smjöri. Hitið við meðalhita þar til það mýkist aðeins. Bætið við sykri og látið karamelluserast lítillega. Hellið rauðvíni og ediki yfir, bætið rifsberjasultu og kryddum út í. Setjið lok á og látið malla við lágan hita í 45–60 mínútur eða þar til kálið verður mjúkt og bragðið djúpt og jólalegt.

Andarkrókketta
400 g confit andaleggir (fást í kæli í poka og í niðursuðudós)
200 g soðnar kartöflur, stappaðar
1 msk. smjör
1 skalottulaukur, fínt saxaður
1 msk. Dijon-sinnep
1 msk. fersk steinselja, söxuð
1 msk. þurrkuð trönuber, fínt söxuð
Börkur af ½ appelsínu
Salt og nýmalaður pipar

Panering
80 g hveiti
2 egg, létt pískuð
150 g panko-brauðrasp

Aðferð:
Steikið skalottulauk mjúkan í smjöri án þess að hann taki lit. Bætið andakjöti og stappaðri kartöflu út í og hrærið vel saman. Kryddið með sinnepi, appelsínuberki, steinselju, þurrkuðum trönuberjum, salti og pipar. Kælið í kæli í að minnsta kosti 1 klst. Mótið litlar sívalar eða kúlulaga krókettur. Veltið þeim fyrst upp úr hveiti, svo eggjum og loks panko. Steikið í 170°C olíu þar til þær verða gullbrúnar og stökkar, um 3–4 mínútur.

Ristað hvítlauksmajónes
200 g majónes
2 ristuð hvítlauksrif, maukuð
1 tsk. sítrónusafi
Salt eftir smekk

Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C (blástur). Setjið hvítlauksrifin, óhýdd, í lítið álform eða á bökunarpappír. Dreypið örlitlu af olíu yfir og bakið í 12–15 mínútur eða þar til þau verða mjúk og gullinbrún. Látið þau kólna, takið hýðið af og maukið rifin í mjúka pastu. Hrærið hvítlaukspastunni saman við majónes, bætið við sítrónusafa og salti og hrærið þar til sósan verður slétt og ljós.

Samsetning:
Raðið krókettunum í skál þannig að þær hvíli fallega hver við aðra. Ristað hvítlauksmajónes og papriku- og chilísulta frá Hagkaup eru sprautaðar yfir í mjúkum, sveigðum línum sem leggjast létt yfir heitar krókkettur. Berið fram og njótið.

Sjá myndband hér