21. September 2022

Tveir nýir starfsmenn hjá Hagkaup

Hagkaup hefur ráðið tvo nýja stjórnendur, þær Ólöfu Söru Árnadóttur og Ingibjörgu Karlsdóttur.

Ólöf Sara Árnadóttir er nýr vöruflokkastjóri Hagkaups og mun leiða innleiðingu á vörustýringakerfi. Ólöf mun koma að greiningu á vöruflokkum og vöruúrvali. Hún mun tryggja meiri áreiðanleika og rétt magn í hillum auk samræmis á milli verslana. Ólöf Sara starfaði frá árinu 2015-2018 sem framkvæmdastjóri birgða og framleiðslustjóri hjá Artic Shopping ehf en þar hafði hún starfað við birgðastýringu frá árinu 2012. Frá árinu 2019 – 2021 starfaði Ólöf hjá Hafnarfjarðarbæ og hafði yfirumsjón með bókasafni skóla. Ólöf Sara er viðskiptafræðingur að mennt en hún útskrifaðist með MBA gráður frá Háskóla Íslands árið 2020.

Ingibjörg Karlsdóttir er nýr fræðslustjóri Hagkaups og mun leiða stafræna þróun í þjálfun. Markmiðið er að auka hæfni og þekkingu starfsmanna. Fræðslustjóri mun innleiða nýtt fræðslukerfi sem mun gjörbreyta því hvernig fræðsla fer fram. Ingibjörg hefur starfað hjá Hagkaup frá árinu 2002, fyrst sem gjaldkeri í hlutastarfi með skóla og síðar sem rekstrarstjóri í Hagkaup Smáralind og Hagkaup Kringlu. Ingibjörg er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri ástamt því að vera viðurkenndur bókari.

Megin markmið Hagkaups er að veita framúrskarandi þjónustu og upplifun, verslunin hefur gefið sig út fyrir að vera skemmtilegasti smásali landsins eða eins og sagt er þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla. Til þess að uppfylla það loforð skiptir góð þjálfun megin máli. Það er mikill styrkur í að fá Ingibjörgu til liðs við okkur til að taka á fræðslumálum. Hagkaup er einnig í stórsókn gegn matarsóun og skipar Ólöf lykilhlutverk í þeirri sókn. Með því að fá hana til liðs við fyrirtækið gefst okkur færi á að rýna betur í vöruflokka og greina hvað sé hægt að gera betur og þannig sporna gegn matarsóun. Spennandi tímar fram undan í að styrkja stoðir en frekar.