ÞÚ (sem hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt) veist að fjölskyldan mín er svo klikkað lið að ég þarf alltaf að reyna að breyta þeim. En núna reyndu ALLIR að breyta MÉR. Sem er fáránlegt af því að ég er FULLKOMIN. Já ... fyrir utan að ég er orðin eineygð ... og get aldrei framar ge... eða sko ... neibb! Ég segi ekki meira! Sjáumst á Ólympíuleikunum. Eða ekki. Þín Stella.
Gunnar Helgason þarf vart að kynna fyrir íslenskum börnum, foreldrum, öfum og ömmum. Bækurnar hans eru í uppáhaldi hjá þeim öllum, auk þess að vera margverðlaunaðar og stjörnum hlaðnar af lesendum jafnt sem alvörugefnum gagnrýnendum. Nú er komið að leiðarlokum hjá Stellu og skrautlegu fjölskyldunni hennar og auðvitað er drama að hætti hússins, bæði pínlegt og HRIKALEGA fyndið.