18. Desember 2025

Áramótaboð með hörpuskel, humar, hreindýrafillet og íssamloku

Landsliðskokkarnir Ísak Aron Jóhannsson og Wiktor Pálasson eru gestirnir í eldhúsinu í þætti dagsins sem tileinkaður er áramótunum og gefa áhorfendum uppskriftir að þriggja rétta hátíðarmáltíð með öllu tilheyrandi. Ísak Aron er fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og starfar í veisluteyminu hjá Múlakaffi. Wiktor starfar á veitingastaðnum Lólu í Hafnarhvoli og er einnig í kokkalandsliðinu og sér um eftirréttina. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups. 

Sjöfn býður í áramótaboð þar sem öllu er tjaldað til og áramótagestirnir sem fá að njóta eru Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt, Sigurður Sævar Magnúsarson myndlistamaður og Tinna Björt Guðjónsdóttir leikkona.

Ísak og Wiktor töfruðu fram forrétt með hátíðarívafi með pönnusteiktri hörpuskel með stökkri parmaskinku og humar og hreindýrafillet ásamt tilheyrandi meðlæti í aðalrétt. Til að toppa áramótamáltíðina buðu þeir upp á íssamloku með stjörnugosi.

„Mér finnst viðeigandi að vera með hátíðarmáltíð um áramótin þar sem metnaðurinn er í fyrirrúmi. Í raun er hægt að vera með alvöru áramótahátíðarkvöldverð bæði á gamlársdag og nýársdag. Þetta eru tímamót sem ber að fagna og þá er líka mikilvægt að bjóða gestum upp á kampavín þegar inn er komið og það er líka hægt að para það með öllum réttunum sem við berum fram,“ segir Ísak.

„Það er líka gaman að vera með auðveldan eftirrétt og bera hann síðan fram með stjörnugosi og sprelli. Þegar gerir matarupplifunin enn skemmtilegri og stemningin í loftinu verður rafmögnuð,“ bætir Wiktor við. Sjón er sögu ríkari.

Í forrétt er pönnusteikt hörpuskel með stökkri parmaskinku, steiktum grænum aspas og sellerírótarmauki. Í aðalrétt framreiða þeir hreindýrafillet með kanadískum humri „haf og hagi“, hátíðlegar hasselback-kartöflur með kryddjurtasmjöri, hunangsgljáðar íslenskar gulrætur með möndlum og humar-hollandaise-sósa. Í eftirrétt bera þeir fram íssamloku með stjörnugosi.

Pönnusteikt hörpuskel með stökkri parmaskinku, steiktum grænum aspas og sellerírótarmauki
500 g hörpuskel
4 hvítlauksgeirar
10 g steinselja
Sítrónusafi eftir smekk
Olía eftir smekk
Smjör eftir smekk
Salt eftir smekk

Aðferð:
Skerið hvítlauk og steinselju fínt og setjið til hliðar. Hreinsið hörpuskelina og þerrið vel. Stráið smá salti yfir og látið standa í 10 mínútur, þerrið síðan aftur. Hitið pönnu á háum hita og setjið smá olíu á hana. Leggið hörpuskelina á pönnuna í klukkuhring og steikið í um 2 mínútur. Snúið þeim við og steikið í 1–2 mínútur til viðbótar. Bætið við smjöri þar til það freyðir.

Setjið hörpuskelina í eldfast mót og látið hvíla í 4–5 mínútur. Setjið hvítlaukinn á pönnuna með smjörinu og steikið á lágum hita í 2 mínútur. Slökkvið undir pönnunni og bætið við steinselju og sítrónusafa. Skerið hörpuskelina í tvennt og veltið upp úr steinselju- og hvítlauksmjörinu. Kryddið örlítið meira með salti ef þarf.

Stökk parmaskinka
1 pakki parmaskinka

Aðferð:
Leggið sneiðarnar á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 140°C í um 14 mínútur, eða þar til þær eru stökkar og fallega brúnaðar. Brjótið í bita.

Steiktur grænn aspas
1 búnt grænn aspas
Olía eftir smekk
Smjör eftir smekk
Salt eftir smekk

Aðferð:
Skerið endana af aspasnum og skrælið aðeins neðsta hlutann ef þarf. Hitið pönnu á miðlungsháum hita og setjið smá olíu á hana. Steikið aspasinn í um 2 mínútur til að fá lit, bætið við smjöri og leyfið því að freyða. Kryddið með salti og berið fram heitan.

Sellerírótarmauk
500 g skræld sellerírót
300 g mjólk
200 g rjómi
100 g smjör
Salt eftir smekk
Sítrónusafi eftir smekk

Aðferð:
Skerið sellerírótina í litla bita og steikið á miðlungshita í 4–5 mínútur. Bætið við smjöri og steikið í 3 mínútur til viðbótar. Hellið mjólk og rjóma út í og látið suðuna koma upp. Hægsjóðið í 10–15 mínútur þar til sellerírótin er mjúk. Setjið í blandara og maukið þar til áferðin er flauelsmjúk. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Pönnusteikt hreindýrafillet
Hreindýrafillet með kanadískum humri, „haf og hagi“, hátíðlegar hasselback-kartöflur með kryddjurtasmjöri, hunangsgljáðar íslenskar gulrætur með möndlum og humar-hollandaise-sósa

Pönnusteikt hreindýrafillet
1 kg hreindýralund
Salt eftir smekk
Repjuolía eftir smekk
Smjör eftir smekk
Ferskt timían (úr potti)

Aðferð:
Fjarlægið silfurskinnið af kjötinu, þerrið vel og stráið salti yfir. Hitið pönnu á háum hita, setjið smá olíu á hana og brúnið kjötið vel á öllum hliðum. Setjið kjötið í eldfast mót. Bætið smjöri á pönnuna, leyfið því að freyða og hellið yfir kjötið ásamt timíani. Setjið í 80°C heitan ofn og notið kjarnhitamæli. Þegar kjarnhitinn nær 50°C er kjötið tekið út og látið hvíla í 10 mínútur. Skerið þvert yfir og stráið sjávarsalti yfir.

Kanadískur humar
4 stk. kanadískur humar
Olía eftir smekk
Smjör eftir smekk
Salt eftir smekk

Aðferð:
Brjótið skelina og takið humarinn varlega úr. Setjið skeljarnar til hliðar fyrir sósuna. Fjarlægið meltingarröndina. Þerrið humarinn vel og saltið létt. Steikið á pönnu á háum hita, byrjið á bakhliðinni þar til hún verður fallega rauð. Bætið við smjöri og leyfið því að freyða. Setjið humarinn í eldfast mót og bakið við 180°C í 3–4 mínútur. Skerið í fallega bita.

Hasselback-kartöflur með kryddjurtasmjöri
4 bökunarkartöflur
Salt eftir smekk
Olía eftir smekk
Nóg af smjöri
Ferskt timían

Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Skerið kartöflurnar í hasselback-sneiðar án þess að fara í gegn. Raðið í eldfast mót, saltið, veltið upp úr olíu og setjið ríkulega af smjöri yfir. Bakið í um 50 mínútur og hellið smjöri yfir kartöflurnar reglulega á meðan.

Hunangsgljáðar gulrætur með ristuðum möndlum
12 íslenskar gulrætur
100 g möndlur
100 ml hunang
Olía eftir smekk
Smjör eftir smekk
Salt eftir smekk

Aðferð:
Ristið möndlurnar við 160°C í 13–15 mínútur og saxið gróft. Þrífið gulræturnar, setjið í eldfast mót og veltið upp úr olíu, hunangi og salti. Bakið við 200°C í um 30 mínútur þar til þær eru karamellíseraðar. Stráið möndlum yfir áður en borið er fram.

Humar-hollandaise-sósa
Humarskeljar
6 eggjarauður
500 g smjör
Olía
Salt
Sítrónusafi

Aðferð:
Hitið olíu í potti og steikið humarskeljarnar þar til þær verða rauðar. Bætið smjöri út í og leyfið að taka bragð í 30 mínútur án hita. Sigtið skeljarnar frá og hitið smjörið í 65°C. Þeytið eggjarauður með salti og sítrónusafa. Hellið smjörinu mjórri bunu út í á meðan þeytt er þar til sósan verður silkimjúk.

Íssamloka með Dumle-kökum
Dumle-kökur
300 g púðursykur
200 g sykur
300 g brætt smjör
2 egg
6 dl hveiti
1½ dl kakó
3 tsk. vanillusykur
1 tsk. kanill
2 tsk. lyftiduft
30 Dumle karamellur
200 g súkkulaðibitar

Aðferð:
Blandið sykri og smjöri saman. Bætið eggjum út í, einu í einu. Hrærið þurrefnum saman við og bætið að lokum Dumle og súkkulaðibitum við. Kælið í 30 mínútur. Mótið 8 kúlur og bakið við 175°C í 12–14 mínútur. Kælið.

Jólaís
500 g mjólk
250 g rjómi
100 g eggjarauður (u.þ.b. 5 stk.)
50 g púðursykur
100 g niðursoðin mjólk
1 matarlímsblað
2 vanillustangir
3 kardimommur
100 g karamellukurl
100 g saxað mjólkursúkkulaði

Aðferð:
Leggið matarlím í kalt vatn. Þeytið eggjarauður og sykur. Hitið mjólk, rjóma og niðursoðna mjólk með vanillu og kardimommu. Bætið matarlími út í. Sigtið og hellið rólega yfir eggjarauðurnar. Setjið í ísvél og bætið karamellu og súkkulaði við í lokin.

Samsetning
Setjið eina köku á hvolf á disk, setjið ís ofan á og lokið með annarri köku. Berið fram með stjörnugosi ef vill.

Sjá myndband hér