18. Nóvember 2025
New York ostaköka í jólabúning og jólasúkkulaðimús með gullkúlum
Í jólaþáttunum Jólagestir á Matarvefnum fær Sjöfn Þórðardóttir til sín góða gesti í heimsókn sem galdra fram jóla- og áramótakrásir af ýmsu tagi sem allir geta leikið eftir. Allt hráefnið í þættinum fæst í verslunum Hagkaups.
Axel Þorsteinsson bakarameistari og konditor frá Hygge bakaríi er fyrsti gestur Sjafnar og töfrar fram New York-ostaköku í jólabúning ásamt jólasúkkulaðimús með gullkúlum. Hann gefur áhorfendum góð ráð þegar góða eftirrétti skal gjöra með hátíðlegu yfirbragði.
„Það er líka gaman að geta búið til góða eftirrétti og tekið með í jólaboð þar sem allir eiga koma með einn rétt á borðið sem sumir kalla Pálínuboð. Jólasúkkulaðimúsin er tilvalinn eftirréttur fyrir slíkt og þá er ráð að setja hana í krukku með loki og jafnvel skreyta krukkuna með fallegum borða og stinga greni í,“ segir Axel sem fór á kostum í eldhúsinu hjá Sjöfn.
New York-ostakaka í jólabúningi - Fyrri parturinn
Chantilly
500 g rjómi
50 g sykur
3 g matarlím
1 stk. vanillustöng
Aðferð:
Leggið matarlímið í bleyti, kalt vatn. Hitið rjóma, sykur og vanillustöng saman í potti en passið að láta ekki sjóða. Bræðið matarlímið út í rjómann. Hellið í ílát og plastið yfir svo plastið snerti rjómann til þess að það myndist ekki skán yfir rjómablönduna. Setjið ísskáp og látið standa þar yfir nótt. Þeytið upp næsta dag þegar þið eruð búin að gera botninn og ostafyllinguna.
Piparköku crumble botn
Piparkökur eftir þörfum og smekk
Smursprey með feiti eftir þörfum
Aðferð:
Myljið piparkökurnar gróft í poka eða skál. Takið kökuformin og spreyjið þau með feiti. Hellið síðan piparkökumulningnum í formin og þjappið honum jafnt og þétt niður. Gott er að nota botn á glasi eða krukku til að þjappa mulningnum niður.
Ostafyllingin
350 g Philadelphia rjómaostur
150 g heil egg
95 g sykur
100 g rjómi
Hazelnut paste
Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 110°C hita. Blandið saman rjómaosti og sykri. Bætið við heilum eggjum, einu í einu og passið að blandan verði ekki kekkjótt. Bætið rjómanum varlega saman við. Bakið á 110°C hita í 110 mínútur, athugið að ofnar geta verið misjafnir. Takið út og látið botnana kólna áður en þið skreytið.
Skraut:
Gullkúlur frá Decora (Decor Sugar)
Saltkaramella
Samsetning:
Byrjið á því að þeyta upp Chantill-kremið. Setjið í sprautupoka og veljið stútt við hæfi og skreytið botnana með því að sprauta kreminu fallega yfir þá. Takið síðan saltkaramelluna og setjið í sprautupoka og sprautið nokkrum röndum yfir kökuna að vild. Skreytið síðan með gullkúlunum í krukkunni að vild. Berið fallega fram á hátíðarborðið.
Jólasúkkulaðimús í krukku eða fallegu glasi á fæti
312 g mjólk
400 g dökkt súkkulaði
200 g mjólkursúkkulaði
6 g matarlím
480 g þeyttur rjómi
Aðferð:
Brjótið súkkulaðið og setjið í skál. Leggið matarlímið í bleyti, kalt vatn. Sjóðið mjólk og hellið yfirsúkkulaðiði og blandið með töfrasprota. Þegar blandan er orðin um 32°C heit þá blanda við þeyttum í 3 skömmtum.
Saltkaramella
200 g sykur
120 g rjómi
90 g smjör, skerið í litla kubba
6 g salt
Aðferð:
Sjóðið rjómann og setjið til hliðar. Karamelluserið sykurinn í 3-4 skömmtum. Hellið síðan rjómanum varlega yfir. Setjið smjörið út í kubba og látið sjóða í 3-4 mínútur. Bætið við salti og blandið með töfrasprota þannig að áferðin verði eins og þið viljið hafa hana.
Skraut og samsetning:
Crumble (piparkökur)
Brownie-kökur, tilbúnar í pokum í Hagkaup
Fersk hindber eftir smekk
Gullkúlur frá Decora (Decor Sugar)
Aðferð:
Takið til nokkrar krukkur með loki ef vill eða glös á fæti eða eftirréttaskálar. Byrjið á því að setja súkkulaðimús í botninn. Því næst smá piparkökumulning í botninn á krukkunum og glösunum. Setjið síðan nokkra bita af Brownie-kökum í botninn líka. Sprautið síðan músinni yfir aftur. Skreytið með ferskum hindberjum og gullkúlum að vild. Berið fram og njótið. Eða geymið krukkurnar með lokinu á inn í ísskáp þar til þið mætið í næstu veislu og viljið mæta með eftirréttinn, eins og í Pálínuboði.