27. Nóvember 2025

Jólakransinn sem mun stela senunni

Auður Ögn Árnadóttir og Sylvía Haukdal frá 17 Sortum eru gestir dagsins í jólaþættinum Jólagestir að þessu sinni og deila með áhorfendum uppskrift sem hefur fylgt Sylvíu frá bernskuárunum sem þær stöllur eru búnar í að setja í jólabúning. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.

Auður og Sylvía eru báðar annálaðir fagurkerar og þegar jólin eru annars vegar vita þær fátt skemmtilegra en að baka ljúffengar og fallegar kökur í öllum stærðum og gerðum. Þar sem fyrsti í aðventu er framundan næsta sunnudag, þann 30. nóvember, væri ekki amalegt að geta bakað fallegan jólakrans til að bera fram.

„Það er svo gaman að bera fram jólalegar kræsingar og hér eru smákökurnar mínar komnar í jólakrans sem er einstaklega fallegur á hátíðarborðið, segir Sylvía.

Auður og Sylvía eru báðar iðnar við að baka fyrir jólin og halda í baksturshefðir frá sínum mæðrum og ömmum. „Við höfum báðar mjög gaman að því að skreyta kökur, þó mér finnist Sylvía vera klárari í því. Það þarf ekki mikið til að færa kökur í jólabúning og það sýnum við til að mynda hér með þessum jólakrans sem má borða og líka nota sem fallegt skraut á hátíðarborðið,“ segir Auður.

Jólakrans Auðar og Sylvíu
500 g púðursykur
220 g smjör, við stofuhita
2 stk. egg
2 tsk. negull
2 tsk engifer
1 tsk. kanill
1 tsk matarsódi
1 tsk. lyftiduft
500 g Kornax hveiti

Aðferð:
Byrjið á því að stilla ofninn á 200°C, blástur. Hrærið saman smjöri, púðusykri, negul, kanil og engiferi. Bætið síðan eggjunum saman við, einu í einu. Loks bætið þið saman við hveiti, lyftidufti og matarsóda. Þegar deigið er komið saman takið þið það og setjið á borð klæddan bökunarpappír og fletjið út á bökunarpappír. Gott er að hafa deigið um það bil 1/2 cm á þykkt og skerið út hringi líkt og gert er í þættinum. Setjið síðan á bökunarplötu og bakið við 200°C hita í 10-14 mínútur. Takið þá út og leyfið hringjunum að kólna aðeins og byrjið síðan á fyllingunni. Afganginn af deiginu er hægt að nota og gera litlar kökur úr því með því að rúlla litlum kúlum og baka við 200°C í 8-10 mínútur eða þið getið geymt deigið í kæli og notað við annað tilefni.

Hvítsúkkulaðimousse með rjómaosti og vanillu
600 ml rjómi, 50/50 íslenskur rjómi og Millac
300 g hvítt súkkulaði
1 askja philadelphia rjómaostur hreinn (250 g)
Vanillustöng, skerið í tvennt og skafið vanillufræin úr með hníf og notið þau

Skreytingar
Ferskar rósmaríngreinar
Fersk rifsber
Raffaello-súkkulaði hjúpað með kókos, eru í hvítum kössum.
Gullkúlur frá Decor, fæst hjá kökuskrautinu í verslunum Hagkaups

Aðferð:
Byrjið á því að setja hvítt súkkulaði og 150 ml. af rjóma saman í skál og hitið í örbylgjuofni þar til rjóminn er kominn upp að suðu, og blandið svo vel saman. Stífþeytið síðan 150 ml. af rjóma og 300 ml. af Milla-rjóma. Passið vel að rjóminn sé kaldur en ekki við stofuhita í þessu tilviki. Blandið síðan rjómaostinum og vanillu saman við hvítsúkkulaðiblönduna þar til blandan verður slétt og fínt. Setjið síðan blönduna varlega saman við rjómann með sleif. Takið til sprautupoka og fyllið hann af blöndunni og sprautið síðan doppum á hringina. Ef fyllingin er ekki nógu stíf er gott að setja hana aðeins í kæli fyrst. Betra að hún sé stíf þegar hún er sett ofan á. Að lokum skreytið þið jólakransinn með rifsberjum og rósmaríngreinum. Raffaell-súkkulaði og gullkúlum eftir smekk. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.

Sjá myndband hér