25. Nóvember 2025
Arna galdrar fram ostrusveppasteik fyrir jólin
Í næsta þætti Jólagesta á Matarvefnum er Arna Engilbertsdóttir, uppskriftahöfundur og lífsknústner, gestur Sjafnar Þórðardóttur og töfrar fram ostrusveppasteik, sveppasósu gerða frá grunni og heitt rósakálssalat með mandarínum með hátíðarívafi. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.
Arna gaf út matreiðslubókina Fræ fyrir jólin í fyrra sem hefur að geyma fjöldann allan af uppskriftum að réttum sem hún hefur þróað sjálf og heldur mikið upp á. Hún hefur mikinn áhuga á matargerð og gefur áhorfendum þáttarins uppskrift að hátíðarmáltíð sem hún ætlar að töfra fram fyrir sig og sína um jólin.
„Ég er mjög hrifin af ostrusveppum, þeir eru svo bragðgóðir og allt öðruvísi en venjulegir sveppir. Með henni ber ég fram sveppasósu sem er gerð frá grunni ásamt heitu rósakálssalati með mandarínum. Það er svo hátíðlegt og kemur með bragðið af jólunum,“ segir Arna.
Hún segir að það sé einnig upplagt að bjóða upp á ostrusveppina sem meðlæti með öllum mat en þeir eru bragðgóðir og skemmtileg viðbót við hátíðarmáltíð.
Ostrusveppasteik
800 g ostrusveppir
5-6 rósmaríngreinar
3 laukar, skornir í tvennt
Grillspjót
Marínering
70 ml lífræn jómfrúarólífuolía
2 msk. fínskorið ferskt rósmarín
1 ½ tsk. paprikukrydd
1 tsk. sinnep
1 tsk. tómatpúrra
1 tsk. lífræn sojasósa eða tamarisósa
3 hvítlauksrif
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C, blástur. Blandið öllum hráefnum saman fyrir marineringu og hellið yfir sveppina. Þræðið sveppina þétt upp á spjótin. Skerið laukana í tvennt og setjið í eldfast mót ásamt 2-3 greinum af rósmaríni. Komið spjótunum fyrir þvert yfir mótið þannig að sveppirnir hangi yfir lauknum og snerti ekki botninn. Þannig ná þeir gylltum lit og mjúkri eldun án þess að festast við botninn og afgangsmarinering lekur yfir laukinn. Bakið í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til sveppirnir hafa fengið fallegan gylltan lit og eru örlítið stökkir.
Sveppasósa
1 laukur, smátt skorinn
3 hvítlauksgeirar, smátt skornir
500 g íslenskir sveppir, smátt skornir
1 dós lífrænn kókosrjómi
4-6 msk. lífræn tamari sósa
Fullt af pipar
Aðferð:
Steikið laukinn upp úr góðri ólífuolíu þar til hann er mjúkur og ilmandi. Bætið sveppunum út í og látið malla við miðlungshita. Leyfið sveppunum að mýkjast í rólegheitunum þar til mestur vökvi hefur gufað upp. Bætið kókosrjóma, tamari-sósu og pipar út í. Hækkið örlítið hitann og látið malla þar til sósan þykknar.
Heitt rósakálssalat með zatar og mandarínu
800 g rósakál, hreinsað og saxað
500 g grasker, skorið í bita
1-2 msk. ólífuolía
1 msk. Za’atar-krydd
100 g valhnetur, saxaðar
1 mandarína, bátar skornir í tvennt
1 granatepli, kjarnarnir losaðir
Salt og pipar eftir smekk
Mandarínudressing
60 ml ólífuolía
1 mandarína, kreist
1 sítróna, kreist
1 hvítlauksgeiri, pressaður
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Hitið ofninn á 180°C og hafið á blæstri. Komið rósakálinu og graskersbitunum fyrir hlið við hlið á ofnskúffu. Hellið 1-2 msk. af ólífuolíu jafnt yfir allt og kryddið með Za’atar. Bakið kálið í um það bil 30 mínútur, takið út ofninum. Látið kólna örlítið. Bakið graskerið í 10 mínútur í viðbót eða þar til það er mjúkt í gegn. Látið kólna örlítið. Undirbúið valhneturnar, mandarínubátana og granateplakjarnana og blandið saman í stóra skál. Undirbúið dressinguna með því að setja allt hráefnið saman í skál eða könnu og hrærið vel saman. Blandið að lokum kálinu og graskerinu saman við restina af salatinu. Hellið dressingunni yfir salatið og berið fallega fram.