31. Janúar 2024
Vetur og vítamín
Janúar getur verið erfiður mánuður. Takmarkað sólarljós er úti, mikill kuldi og margir að jafna sig eftir jólahátíðina, bæði fjárhagslega, andlega og/eða líkamlega. Margir nýta janúarmánuð til þess að plana árið sem framundan er og huga að heilsunni. Finna leiðir til að bæta mataræðið og leiðir til að gera lífsstílsbreytingu til hins betra. Yfir vetrartímana er fólk einnig líklegra til að greinast með inflúensuna og aðrar pestir og því ekki seinna vænna en að huga að leiðum til að styrkja ónæmiskerfið t.d. með góðum svefn, hreyfingu og hollu mataræði.
Ein auðveldasta leiðin til að styrkja ónæmiskerfið er að taka inn D-vítamín. D-vítamín styrkir einnig bein og vöðva. Þar sem lítið er um sólarljós þessa dagana má segja að það sé ekki aðeins ráðlagt heldur nauðsynlegt að taka inn D-vítamín bætiefni yfir vetrartíma.
Vítamín eru lífræn efni sem líkaminn þarf til að starfa eðlilega. Flest vítamín fáum við úr næringunni en ef of lítið af vítamínum er innbyrt þá geta komið fram einkenni skorts. Vítamín viðhalda hraustum líkama og þrátt fyrir að þau birtast í mjög litlum skömmtum í fæðunni þá eru áhrif vítamína á líkamann mikil og nauðsynleg.
Önnur vítamín og steinefni sem geta verið gagnleg til inntöku:
C-vítamín er andoxunarefni sem styrkir m.a. ónæmiskerfið, verndar frumur líkamans gegn UV geislun og tóbaksreyk, styrkir varnir líkamans og eykur upptöku járns í meltingunni. Það tekur þátt í nýmyndun kollagens og er oft notað í snyrtivörum. Flestir fá nóg af C-vítamíni úr fæðunni en reykingar og áfengisneysla eykur þörf á inntöku C-vítamíns. Margir taka inn C-vítamín í veikindum til að efla ónæmiskerfið.
B-3 vítamín sem er einnig þekkt sem niacin aðstoðar við efnaskipti í líkamanum og er einnig þekkt fyrir að bæta heilsu húðarinnar hvort sem það er fengið úr næringu, tekið inn sem bætiefni eða borið á líkamann. Mörg krem innihalda B-3 vítamín og er það vinsælt í snyrtivörum.
B-7 vítamín er einnig þekkt sem bíótín er framleitt í meltingarveginum en sumir taka það einnig inn sem bætiefni þar sem bíótín styrkir meðal annars neglur, húð og hár. Bíótín hjálpar einnig líkamanum við að brjóta niður orkuefni og eru því mikilvæg fyrir meltinguna.
Járn er steinefni sem meðal annars flytur súrefni til vefja líkamans. Við tíðarblæðingar verður tap á járni í líkamanum, mismikið eftir einstaklingum. Ef mikil þreyta eða jafnvel svimi fylgir blæðingum þá getur verið ráðlagt að taka inn járn sem bætiefni. Járn stuðlar að eðlilegri myndun rauðra blóðkorna, styrkjir ónæmiskerfið og veitir aukna orku.
Zink er steinefni sem hefur fjölbreytta virkni t.d. styrkir ónæmiskerfið, aðstoðar við efnaskipti, DNA myndun og próteinframleiðslu. Zink finnst meðal annars í baunum, korni, fisk og kjöti en finnst einnig í fjölvítamínum og öðrum bætiefnum.
Joð er steinefni sem er mikilvægt fyrir efnaskipti líkamans. Joð finnst aðallega í fisk og mjólkurvörum. Fyrir þá sem ekki boða fisk eða mjólk er rálagt að taka inn joð sem bætiefni þar sem líkaminn getur ekki framleitt joð.
Hafa skal í huga að fólk með fæðuóþol eða borðar takmarkaða fæðu getur þurft að taka inn bætiefni oftar en aðrir einstaklingar. Einnig getur fólk þurft á bætiefnum að halda á ákveðnum tímum, t.d. fyrir þau sem fara á tíðarblæðingar getur verið gagnlegt að taka inn járn yfir það tímabil sem tíðarblæðingar eiga sér stað. Magnesíum eftir góða æfingu getur einnig hjálpað með endurheimt. Holl og góð næring er lykilatriði að heilbrigðum lífsstíl og þegar líkaminn starfar rétt þá eru lífsgæði mun betri.
Höfundur: Helga María