20. Nóvember 2025
Uppáhaldsréttir Helgu Möggu á aðventunni
Í jólaþáttunum Jólagestir á Matarvefnum fær Sjöfn Þórðardóttir til sín góða gesti í heimsókn sem galdra fram jóla- og áramótakrásir af ýmsu tagi sem allir geta leikið eftir. Allt hráefnið í þættinum fæst í verslunum Hagkaups.
Helga Margrét Gunnarsdóttir, næringarþjálfari og alla jafna kölluð Helga Magga, er gestur Sjafnar í næsta þætti og deilir með áhorfendum nokkrum af sínum uppáhaldsréttum sem eiga vel við í aðventunni og yfir hátíðirnar. Hún gerir til að mynda rauðrófur í krydduðum jólalögum sem passa ákaflega vel á smurbrauð í aðventunni. Einnig bakar hún skinkuhorn fyllt með ostasmyrju og útbýr heitt súkkulaði.
„Rauðrófurnar í jólalögunum eru jólahefð hjá fjölskyldunni og eru ómissandi hluti af aðventunni hjá okkur,“ segir Helga Magga. „Á jóladag bökum við ávallt skinkuhorn og gæðum okkur á þeim og heitu súkkulaði með þeyttum rjóma og súkkulaðispænum. Það er svo notalegt að eiga gæðastund með fjölskyldunni í kósífötum og ylja sér við heitt súkkulaði með góðgæti við hönd.“
Rauðrófur í jólalögi
5–6 stk. rauðrófur, betra að hafa þær stórar
Aðferð: Sjóðið rauðrófurnar í um það bil 1 klukkustund í vatni eða þar til hýðið rennur auðveldlega af þeim. Takið þær upp úr og látið kólna og hreinsið síðan hýðið af þeim. Gott er að vera í plasthönskum þegar hýðið er tekið af þar sem það litar töluvert.
Jólalögurinn
2 bollar Edik Flóra 4–5% borðedik
1 bolli vatn
250 g sykur
Kanilstangir eftir þörfum
Lárviðarlauf eftir þörfum
Negulnaglar eftir þörfum
Aðferð:
Setjið allt hráefnið í pott, náið suðunni upp og látið malla í stutta stund.
Samsetning í krukkur
Gott er að vera með rauðrófuskerara eða mandólín til að skera rófurnar niður í sneiðar. Einnig er gott að eiga 6–8 meðalstórar krukkur með loki til að setja rófurnar í. Skerið rauðrófurnar niður í nokkrar meðalþykkar sneiðar og raðið í krukkurnar. Hellið síðan blöndunni ofan í krukkurnar yfir rófurnar.
Setjið síðan eftirfarandi í krukkurnar:
Kanilstangir, 1–2 í hverja krukku
Lárviðarlauf, 1–2 í hverja krukku
Negulnaglar, 5–10 í hverja krukku
Aðferð:
Leyfið krukkunum að standa opnum á meðan lögurinn kólnar og lokið svo. Geymið síðan inni í ísskáp.
Notkun og hráefni
Gróft danskt rúgbrauð eða brauð að eigin vali
Ali dönsk lifrarkæfa
Rauðrófur í jólalögi
Leggið niður brauðsneiðar og smyrjið þær með kæfunni. Veiðið síðan rauðrófu upp úr krukkunni og leggið ofan á. Hægt er að borða þetta hversdagslega eða töfra fram jólalegt smurbrauð og skreyta sneiðarnar með sprettum eða öðru sem hugurinn girnist.
Heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og súkkulaðispænum
200 g Síríus suðusúkkulaði
1 l mjólk
1 bolli vatn
Klípa af salti
Yfir heita súkkulaðið:
Þeyttur rjómi eftir smekk
Súkkulaðispænir eftir smekk
Aðferð:
Hitið vatn í potti og leysið súkkulaðið upp í því. Bætið mjólk og salti við og hitið upp að suðumarki. Berið fram með þeyttum rjóma og súkkulaðispæni eftir smekk. Gaman er að prófa sig áfram með aðrar tegundir Síríus suðusúkkulaðis, t.d. með karamellu og salti ef vill.
Skinkuhorn
400 ml mjólk
12 g þurrger (1 pk)
1 msk. sykur
100 ml olía
1 tsk. salt
660 g brauðhveiti (Blátt Kornax)
Fylling:
250 g smurostur / skinkumyrja
Rifinn ostur ef vill
Yfir skinkuhornin fyrir bakstur:
Pensla með pískuðu eggi. Kúmenfræ eftir smekk ef vill.
Aðferð:
Hitið mjólkina þar til hún er ylvolg, í örbylgjuofni eða potti. Setjið í hrærivélarskál og bætið þurrgerinu saman við, hrærið létt. Leyfið því að standa örlítið á meðan þið takið hin hráefnin saman. Bætið þá restinni af hráefnunum saman við og hrærið með krók á lágri stillingu í 3–4 mínútur. Takið deigið af króknum, hnoðið í kúlu og setjið aftur í skálina. Setjið rakt viskastykki yfir og leyfið deiginu að hvíla í minnst 1 klukkustund. Takið deigið á hveitistráð borð og skiptið í tvennt. Fletjið annan helminginn út í hring, u.þ.b. 5 mm þykkan. Skerið í 16 þríhyrninga.
Setjið um eina teskeið af fyllingu á breiða endann á hverjum þríhyrningi og ef vill smá rifinn ost. Til að rúlla þeim upp: Tosið aðeins í hornin hvort sínu megin við fyllinguna, lokið yfir hana og rúllið upp. Tosið í mjóa endann til að fá brotið sem fer undir hornið. Leggið hornin á bökunarpappír með mjóa endann niður. Passið að fyllingin sé lokuð inni í deiginu svo hún leki ekki út. Leyfið að hefast í 20–30 mínútur. Endurtakið með seinni helminginn af deiginu.
Hitið ofn í 200°C, blástur. Penslið hornin með eggi og setjið kúmenfræ eða rifinn ost ef vill. Bakið í 10 mínútur eða þar til gullinbrún.