24. Júlí 2025
Ævintýralegt allsnægtaborð
Arkitektinn og lífsknústnerinn Hildur Gunnlaugsdóttir er gestur Sjafnar Þórðardóttur í síðasta þættinum í grillþáttaseríunni Logandi ljúffengt í bili. Hún er þekkt fyrir að vera með einstaklega skemmtilegan Instagramreikning þar sem hún deilir skemmtilegum hugmyndum fyrir heimilið og má segja að hún sé líka áhrifavaldur. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.
Hildur er sniðugri en flestir og mikill gleðigjafi sem kann að halda alvöru grillpartí. Hún töfrar fram ævintýralegu allsnægtaborði með frönsku, ítölsku og íslensku ívafi með Sjöfn. Hún hleður á borðið alls konar kræsingum, þar má nefna íslenska osta, grillaða og bakaða, fersk ber, sæta mola, holl frækex, steinbakað baguette svo fátt sé nefnt. Þær stöllur grilla síðan góðgæti sem steinliggur þegar garðveislu skal gjöra.
„Mér finnst fátt skemmtilegra en að halda einföld og skemmtileg partí þar sem eitthvað er fyrir alla en án þess að vera að sligast í eldhúsinu í marga klukkutíma. Að stilla upp svona blönduðum kræsingum á viðarbretti og keramikplatta eins og við Sjöfn gerum hér eru fullkomnar til að bjóða upp á. Það eru engar reglur aðrar en að hafa bara gaman að þessu og skemmtilegast er auðvitað að gera þetta með góðri vinkonu,“ segir Hildur og brosir sínu fallega og hlýja brosi.
„Ég elska ævintýraleg allsnægtarborð eins og þetta, er í anda Rómverja og allir finna eitthvað við sitt hæfi.“