11. Desember 2025
Aspassúpa í jólabúning og Rakelarrósir
Rakel María Hjaltadóttir er gestur í þætti dagsins og gefur áhorfendum uppskriftir að forrétti og aspasúpu í jólabúningi ásamt Rakelarrósum. Rakel María er einstaklega útsjónarsöm þegar kemur að því að útbúa einfalda og bragðgóða rétti sem krefjast ekki mikils undirbúnings. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.
Hún töfrar ómótstæðilega góða jólageitaostaídýfu sem borin er fram með ítölsku kexi. Ídýfuna má líka hafa sem partírétt í áramótaboðinu og hver og einn getur valið meðlæti. Síðan lagar Rakel María aspassúpu með parmesanosti í aðalrétt, ásamt undursamlega ljúffengum Rakelarrósum. Hún gefur áhorfendum uppskrift að einfaldri jólamáltíð sem allir geta leikið eftir.
„Aspassúpan minnir mig á jólin þar sem það var hefð að bjóða upp á hana á aðfangadag í minni bernsku. Mér finnst því afar jólalegt að bjóða upp á aspassúpu um hátíðirnar,“ segir Rakel María.
Þeytt jólageitaostaídýfa
2 pk. Chavroux geitaostur
200 g rjómaostur frá MS (1 pk)
Hunang eftir smekk út í rjómaostablönduna
Örlítið gróft sjávarsalt
Smjörklípa eftir þörfum og smekk
2 msk. púðursykur
1 msk. hunang út á pönnuna með púðursykrinum
1 sítróna, börkurinn
Þurrkuð trönuber eftir smekk
Valhnetur eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á því að setja geitaostinn og rjómaostinn saman í skál og hrærið vel saman þar til blandan verður silkimjúk. Setjið síðan örlítið hunang út í og hrærið. Setjið smá sjávarsalt út í blönduna. Saxið síðan valhnetur og trönuber gróft. Takið pönnu og hitið á miðlungshita, bræðið góða smjörklípu. Þegar smjörið er bráðið, setjið púðursykur og hunang út í.
Þegar smjör- og púðursykursblandan er farin að krauma, setjið valhnetur og trönuber út í og hrærið vel. Rífið loks sítrónubörk út í blönduna. Látið kólna aðeins og setjið ostablönduna í víða skál. Þegar krönsblandan hefur kólnað setjið hana yfir ostablönduna og raspið örlítið af sítrónubörk yfir. Berið fram með ítölsku kexi eða því sem ykkur langar að hafa með geitaostaídýfunni.
Aspassúpa borin fram með Rakelarrósum
1 ferna Íslandssúpa – aspassúpa
1 krukka lúxusaspas í glerkrukku frá Sælkeraborði Hagkaups
Rifinn parmesanostur eftir smekk, frá Sælkeraborði Hagkaups
Rjómi ef vill
Aðferð:
Hellið súpunni í hæfilega stóran pott og hitið upp að suðu. Takið nokkrar aspaslengjur úr krukkunni og skerið í smærri hluta ef vill, og bætið síðan út í súpuna. Upplagt er að setja smá rjóma út í ef vill. Setjið síðan rifinn parmesanost út í súpuna þegar hún er borin fram. Gaman er að velja fallegar súpuskálar sem fanga augað.
Rakelarrósir
1 pk. pítsadeig frá Wewalka
Farmagalli, hráskinka
Parmesankrem
Rifinn parmesanostur frá Sælkeraborði Hagkaups
Grænt trufflupestó, Tartufo
Ferskar steinlausar döðlur
Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Takið pítsadeigið út og sléttið á bökunarpappírnum. Setjið rjómaost og pestó saman í skál og blandið vel. Smyrjið blöndunni yfir útflatt pítsadeigið. Saxið nokkrar döðlur og dreifið yfir rjóma- og pestóblönduna. Leggið deigið saman eins og samloku (sjá í þættinum). Skerið deigið í ræmur þversum, snúið upp á ræmurnar, búið til snúninga og setjið sneið af hráskinku á hverja ræmu.
Útbúið rósir líkt og Rakel María gerir í þættinum. Raðið á ofnplötu klædda bökunarpappír, setjið í ofn og bakið í 15–20 mínútur eða þar til rósirnar eru orðnar gullinbrúnar. Berið fallega fram með aspassúpunni.