11. Apríl 2023

Góð ráð varðandi gerviaugnhár

Það vefst fyrir mörgum hvernig á að setja á sig gerviaugnhár, en örvæntið ekki hér koma ráðin sem þið hafið beðið eftir. Hvað þarf að hafa í huga? Hvað ber að varast og hvaða tæki og tól borgar sig að hafa við höndina?

Tæki og tól
Það eru ákveðin tól sem borgar sig að hafa til taks þegar við setjum á okkur augnhár.
Lítill handspegill er algjör snilld því það auðveldar okkur að fókusa vel á annað augað í einu og stjórna staðsetningu spegilsins betur.
Plokkari það getur auðveldað svo mikið að hafa góðan plokkara til taks. Bæði er gott að nota hann til þess að koma augnhárunum á sinn stað og líka til þess að klemma saman eigin augnhár og gerviaugnhárin.
Skæri til þess að klippa augnhárin til eru algjör nauðsyn! Best er að nota lítil naglaskæri eða augabrúnaskæri.
Augnháralím er auðvitað eitthvað sem ekki má gleyma. Oft fylgir það með augnhárunum en það er þó ekki algilt svo það borgar sig að hafa það til taks.

Hvernig er best að setja augnhárin á?

Hér eru nokkrir hlutir sem þarf að hafa í huga. Áður en við förum að vinna með límið er best að passa að augnhárin séu í réttri stærð fyrir augun þ.e.a.s. hvort þau passi við lengd augnanna eða hvort þau nái of langt út af augnlokinu. Það er best að máta augnhárin og klippa þau svo til svo að þau fylgi nokkuð vel augnhárarótinni þinni. Ef augnhárin eru of löng og ná of langt út fyrir augnlokið geta þau dregið augun örlítið niður og við finnum jafnvel meira fyrir þeim og það er óþægilegra að vera með þau.

Þegar augnhárin eru orðin passleg er kominn tími til að líma þau á sinn stað! Það er best að taka spegilinn og halda honum frekar neðarlega svo við horfum vel niður í spegilinn þegar við komum augnhárunum fyrir. Setjum lím á bandið á gerviaugnhárunum og látum það þorna í smá stund. Best að bíða í kannski 15-30 sekúndur svo límið verði örlítið klístrað, það getur jafnvel verið gott að nýta tímann til þess að bretta eigin augnhár á meðan. Mér finnst langbest að taka plokkarann og nota hann til þess að stýra augnhárunum á augnlokið og koma þeim fyrir eins nálægt augnhárarótinni og ég get. Það að horfa niður í spegilinn auðveldar það! Ef mér finnst augnhárin aðeins gapa frá mínum náttúrulegu augnhárum finnst mér gott að klípa þau saman með plokkaranum, hér borgar sig að fara varlega og reyna eftir fremsta megni að sleppa því að pota í augað á sér með plokkaranum.

Þú ræður svo hvort þú setur maskarann á áður en augnhárin eru límd á eða eftir, það er mismunandi hvað fólki finnst best þar.

Svo þornar límið og allt ætti að vera á sínum stað. Ef ekki, þá bara tökum við augnhárin af og reynum aftur, þetta kemur allt með æfingunni en þessi örfáu ráð ættu svo sannarlega að auðvelda þessa aðgerð sem augnháraásetning getur verið.

Úrval af augnhárum hjá okkur má finna hér en það er svo bara smekksatriði hvaða augnhár við kjósum að nota hverju sinni.

Höfundur: Lilja Gísladóttir fyrir Hagkaup