23. Júlí 2025
Stjörnukokkurinn sýnir snilldartakta á kolagrillinu
Matreiðslumaðurinn og stjörnukokkurinn Hinrik Örn Lárusson er gestur Sjafnar Þórðardóttur í næsta þætti í grillþáttaseríunni Logandi ljúffengt. Hann sýnir snilldartakta á kolagrillinu og galdrar fram tvo grillrétti, annars vegar forrétt og hins vegar aðalrétt með sínu tvisti. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.
„Forrétturinn er mitt „take“ á Croque Monsieur, en hana geri ég með trufflum og parmaskinku og fullt af parmesan-osti. Síðan eru það hágæða íslenskar ribeye-steikur frá Nýjabæ sem er ótrúlega gaman að grilla á kolagrilli,“ segir Hinrik með bros á vör.
Það eru engar smásteikur sem Hinrik mætir með og grillar með sinni alkunnu snilld sem allir geta leikið eftir ef þeir vilja.
Hinrik mun keppa fyrir hönd Íslands í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d´Or, sem fram fer í Lyon í Frakklandi í janúar 2027 og hefur þegar hafið undirbúning. Hann afhjúpar í þættinum hvað hann ætlar sér í keppninni.
Hinrik er hokinn reynslu og hefur mikla ástríðu fyrir fagi sínu. Hann er einnig einn eigenda Sælkerabúðarinnar og Lux-veitinga sem hann hefur sinnt af alúð undanfarin misseri.
Forréttur – Mitt take á Croque Monsieur með trufflum og parmaskinku
4 sneiðar af jalapeño cheddar súrdeigsbrauði, t.d. úr Hagkaup
1 krukka trufflumajónes
Rifinn parmesanostur
4 sneiðar parmaskinka
Truffluhunang eftir smekk
Ólífuolía eftir smekk
Aðferð:
Smyrðu þunnt lag af trufflumajónesi á allar brauðsneiðarnar. Leggðu 2 sneiðar af parmaskinku á hverja af tveimur brauðsneiðum. Stráðu ríkulega af rifnum parmesan yfir skinkuna. Settu um 1 teskeið af truffluhunangi yfir hverja sneið. Lokið samlokunum með hinum tveimur sneiðunum. Penslaðu báðar hliðar samlokunnar með ólífuolíu. Grillaðu á mjög heitum pönnu eða grilli í 20–30 sekúndur á hvorri hlið, eða þar til samlokan er gullinbrún og fallega grilluð. Skerðu í helming og berðu fram með trufflu-majónesi til hliðar.
Aðalréttur – Grilluð Ribeye-steik með grilluðum smælkikartöflum, ostrusveppum og klettasalat
2 stk. góðar, vel valdar ribeye-steikur, t.d. frá Nýjabæ eða aðrar gæðasteikur
Ólífuolía eftir smekk
Salt eftir smekk
200 g ostrusveppir
300 g soðnar smælkikartöflur
Klettasalat eftir smekk
Parmesan-ostur eftir smekk
Balsamico dressing eftir smekk
Kryddjurtasmjör frá Hagkaup
Aðferð:
Penslið steikurnar með ólífuolíu og kryddið með salti. Gerið það sama við soðnu kartöflurnar og ostrusveppina – penslið með olíu og salti.
Grillið steikurnar á mjög háum hita, ég mæli með að grilla á kolagrilli, í 3–4 mínútur, snúið reglulega til aðhitinn dreifist jafnt. Notið kjarnhitamæli og miðið við að taka steikina af grillinu þegar hitinn er kominn í 50–52°C. Steikin nær svo 56–58°C í hvíld, sem gefur fallega medium steik. Látið steikina hvíla í 4–5 mínútur áður en hún er borin fram.
Á meðan steikin hvílir, grillið þá smælki kartöflurnar og ostrusveppina. Penslið hvort tveggja með kryddjurtasmjörinu fyrir aukinn bragðauka.
Dressið klettasaltið með ólífuolíu og balsamico. Setjið steikurnar á disk eða viðarbretti og setjið síðan klettasalat yfirog rifinn parmesan-ost ríkulega yfir toppinn. Berið fram með grilluðu kartöflunum og ostrusveppunum. Bjóðið upp á ólífuolíu til hliðar sem sósu. Njótið vel með góðum drykk í glasi.