23. Júlí 2025

Stjörnukokkurinn sýnir snilldartakta á kolagrillinu

Mat­reiðslumaður­inn og stjörnu­kokk­ur­inn Hinrik Örn Lárus­son er gest­ur Sjafn­ar Þórðardótt­ur í næsta þætti í grillþáttaserí­unni Log­andi ljúf­fengt. Hann sýn­ir snilld­ar­takta á kola­grill­inu og galdr­ar fram tvo grill­rétti, ann­ars veg­ar for­rétt og hins veg­ar aðal­rétt með sínu tvisti. Allt hrá­efnið fæst í versl­un­um Hag­kaups.

„For­rétt­ur­inn er mitt „take“ á Croque Monsie­ur, en hana geri ég með truffl­um og parma­skinku og fullt af par­mes­an-osti. Síðan eru það hágæða ís­lensk­ar ri­beye-steik­ur frá Nýja­bæ sem er ótrú­lega gam­an að grilla á kola­grilli,“ seg­ir Hinrik með bros á vör.

Það eru eng­ar smá­steik­ur sem Hinrik mæt­ir með og grill­ar með sinni al­kunnu snilld sem all­ir geta leikið eft­ir ef þeir vilja.

Hinrik mun keppa fyr­ir hönd Íslands í virt­ustu mat­reiðslu­keppni heims, Bocu­se d´Or, sem fram fer í Lyon í Frakklandi í janú­ar 2027 og hef­ur þegar hafið und­ir­bún­ing. Hann af­hjúp­ar í þætt­in­um hvað hann ætl­ar sér í keppn­inni.

Hinrik er hok­inn reynslu og hef­ur mikla ástríðu fyr­ir fagi sínu. Hann er einnig einn eig­enda Sæl­kera­búðar­inn­ar og Lux-veit­inga sem hann hef­ur sinnt af alúð und­an­far­in miss­eri.

For­rétt­ur – Mitt take á Croque Monsie­ur með truffl­um og parma­skinku
4 sneiðar af jalapeño chedd­ar súr­deigs­brauði, t.d. úr Hag­kaup
1 krukka trufflu­majónes
Rif­inn par­mesanost­ur
4 sneiðar parma­skinka
Trufflu­hun­ang eft­ir smekk
Ólífu­olía eft­ir smekk

Aðferð:
Smyrðu þunnt lag af trufflu­majónesi á all­ar brauðsneiðarn­ar. Leggðu 2 sneiðar af parma­skinku á hverja af tveim­ur brauðsneiðum. Stráðu ríku­lega af rifn­um par­mes­an yfir skink­una. Settu um 1 te­skeið af trufflu­hun­angi yfir hverja sneið. Lokið sam­lok­un­um með hinum tveim­ur sneiðunum. Penslaðu báðar hliðar sam­lok­unn­ar með ólífu­olíu. Grillaðu á mjög heit­um pönnu eða grilli í 20–30 sek­únd­ur á hvorri hlið, eða þar til sam­lok­an er gull­in­brún og fal­lega grilluð. Skerðu í helm­ing og berðu fram með trufflu-maj­ónesi til hliðar.

Aðal­rétt­ur – Grilluð Ri­beye-steik með grilluðum smælkikart­öfl­um, ostru­svepp­um og klettasal­at
2 stk. góðar, vel vald­ar ri­beye-steik­ur, t.d. frá Nýja­bæ eða aðrar gæðasteik­ur
Ólífu­olía eft­ir smekk
Salt eft­ir smekk
200 g ostru­svepp­ir
300 g soðnar smælkikart­öfl­ur
Kletta­sal­at eft­ir smekk
Par­mes­an-ost­ur eft­ir smekk
Bal­samico dress­ing eft­ir smekk
Kryd­d­jurta­smjör frá Hag­kaup

Aðferð:
Penslið steik­urn­ar með ólífu­olíu og kryddið með salti. Gerið það sama við soðnu kart­öflurnar og ostru­svepp­ina – penslið með olíu og salti.

Grillið steik­urn­ar á mjög háum hita, ég mæli með að grilla á kola­grilli, í 3–4 mín­út­ur, snúið reglu­lega til aðhit­inn dreif­ist jafnt. Notið kjarn­hita­mæli og miðið við að taka steik­ina af grill­inu þegar hit­inn er kom­inn í 50–52°C. Steik­in nær svo 56–58°C í hvíld, sem gef­ur fal­lega medi­um steik. Látið steik­ina hvíla í 4–5 mín­út­ur áður en hún er bor­in fram.

Á meðan steik­in hvíl­ir, grillið þá smælki kart­öfl­urn­ar og ostru­svepp­ina. Penslið hvort tveggja með kryd­d­jurta­smjör­inu fyr­ir auk­inn bragðauka.

Dressið kletta­saltið með ólífu­olíu og bal­samico. Setjið steikurnar á disk eða viðarbretti og setjið síðan kletta­sal­at yf­ir­og rif­inn par­mes­an-ost ríku­lega yfir topp­inn. Berið fram með grilluðu kart­öfl­un­um og ostru­svepp­un­um. Bjóðið upp á ólífu­olíu til hliðar sem sósu. Njótið vel með góðum drykk í glasi.