1. Júlí 2025
Humar- og parmaskinkuspjót með límónudressingu og mangósalsa
Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur er gestur Sjafnar Þórðardóttur, í þættinum Logandi ljúffengt, að þessu sinni. Hugi vann keppnina, Eftirréttur ársins, árið 2024 og er þekktur fyrir að gera ómótstæðilega góða eftirrétti sem fanga bæði augu og munn. Hann er vaktstjóri á veitingastaðnum Fröken Reykjavík og nýtur þess að dekra við gestina.
Hugi býður upp á grillið humar- og parmaskinkuspjót með syndsamlega ljúffengum dressingum. Spjótin má framreiða sem forrétt eða sem skemmtilegan partírétt í næstu grillveislu. Þar sem Hugi er frægur fyrir eftirrétti sína stóðst hann ekki mátið og töfrar fram dýrindis böku með grilluðum eplum og ferskjum. Þetta eru réttir sem allir geta leikið eftir og steinliggja í næsta sumarpartíi.
Humar- og parmaskinkuspjót með límónudressingu og mangósalsa
Humar og parmaskinka
350- 400 g skelflettur humar, þiðin
1 bréf parmaskinka
Jómfrúarolífuolía
Saltflögur eftir smekk
Hunang
Límónumajónes, sjá uppskrift fyrir neðan
Mangósalsa, sjá uppskrift fyrir neðan.
Kerfill til skrauts
Aðferð:
Byrjið á því að gera mangósalsa og límónumajónes. Kveikið síðan á grillinu og náið hitanum upp. Þræðið síðan skelfletta humarinn upp á spjótið. Leggið á disk og hellið yfir hann ólífuolíu og stráið grófum saltflögum yfir. Grillið síðan humarspjótin á funheitu grillinu, örstutt, um það bil 1 til 2 mínútur á hvorri hlið. Setjið aftur á disk og sprautið síðan límónumajónesi yfir ef þið eruð með það í sprautupoka annars setjið þið það á með skeið.
Næst setjið þið mangósalsa yfir humarspjótin með skeið, góða fyllingu ofan á hvert spjót. Loks setjið þið eina sneið af parmaskínku ofan á hvert humarspjót líkt og Hugi gerir í þættinum. Síðan er gott að setja smá hunang yfir parmaskinkuna eftir smekk. Kryddið örlítið með grófum saltflögum. Að lokum er gaman að skreyta humarspjótin með kerfil og bera fagurlega fram.
Límónumajónes
1 bolli majónes
3 msk. hunang
Börkur af einni límónu
2 msk. ferskur límónusafi
1/4 tsk. salt eða eftir smekk
1/4 tsk. pipar eða eftir smekk
Aðferð:
Hrærið öllu hráefnunum saman þar til allt er vel blandað saman. Saltið svo og piprið eftir smekk. Setjið inn í sprautapoka ef vill, annars í gott ílát. Geymið í ísskáp, með loki eða plastfilmu, þar til tilbúið til notkunar.
Mangósalsa
3 þroskuð mangó, skorin í teninga
1/2 bolli rauðlaukur, saxaður
1/4 bolli ferskt kóríander, saxað smátt
1 jalapeno, fræhreinsaður og saxaður smátt
Safi úr 1 stórri límónu (u.þ.b. 1/4 bolli)
1/8 - 1/4 tsk salt, eftir smekk.
Aðferð:
Blandið öllum hráefnunum saman í skál. Smakkið svo til með salti og bætið við límónusafa ef vill. Geymið í ísskáp, hulið, þar til tilbúið til notkunar.
Grilluðu ferskju- og eplabaka
Karamella
3 msk. brætt smjör
3/4 bolli púðursykur
1 ferskja, afhýdd og sneidd
1 epli, afhýtt og sneitt
Aðferð:
Byrjið á því að hita grillið. Blandið bræddu smjöri og púðursykri saman. Skerið ferskjur og epli niður í sneiðar og grillið í örfáar mínútur á grillinu. Smyrjið sykurblöndunni jafnt út á botninn á formi. Raðið síðan ferskjusneiðum og eplasneiðum ofan á.
Bakan
1 1/2 bolli hveiti
1 1/2 tsk. lyftiduft
Hnífsoddur salt
2 stór egg
1 bolli sykur
1 tsk. vanilludropar
3 msk. matarolía
5 msk. smjör við stofuhita
1/2 bolli mjólk
Aðferð:
Sigtið hveiti, lyftiduft og salt saman í skál. Í annarri skál, hrærið saman smjöri, sykri og olíu. Bætið síðan eggjum saman við og hrærið. Hrærið helming af þurrefnablöndunni við. Bætið svo mjólk út í og hrærið. Bætið að lokum restinni af þurrefnablöndunni við og hrærið. Hellið deiginu yfir karamellulagið í forminu og sléttið vel út. Setið kökuna í forminu á grillið í 15-20 mínútur og leyfið henni síðan að hvíla í 5-10 mínútur áður en hún er borin fram. Gott er að bera fram kökuna með ís og karamellusósu.