1. Júlí 2025

Hum­ar- og parma­skinkuspjót með límónu­dress­ingu og mangósalsa

Hugi Rafn Stef­áns­son landsliðskokk­ur er gest­ur Sjafn­ar Þórðardótt­ur, í þætt­in­um Log­andi ljúf­fengt, að þessu sinni. Hugi vann keppn­ina, Eft­ir­rétt­ur árs­ins, árið 2024 og er þekkt­ur fyr­ir að gera ómót­stæðilega góða eft­ir­rétti sem fanga bæði augu og munn. Hann er vakt­stjóri á veit­ingastaðnum Frök­en Reykja­vík og nýt­ur þess að dekra við gest­ina.

Hugi býður upp á grillið hum­ar- og parma­skinku­spjót með synd­sam­lega ljúf­feng­um dress­ing­um. Spjót­in má fram­reiða sem for­rétt eða sem skemmti­leg­an par­tírétt í næstu grill­veislu. Þar sem Hugi er fræg­ur fyr­ir eft­ir­rétti sína stóðst hann ekki mátið og töfr­ar fram dýr­ind­is böku með grilluðum epl­um og fer­skj­um. Þetta eru rétt­ir sem all­ir geta leikið eft­ir og stein­liggja í næsta sum­arpar­tíi.

Hum­ar- og parma­skinkuspjót með límónu­dress­ingu og mangósalsa

Hum­ar og parma­skinka
350- 400 g skelflett­ur hum­ar, þiðin
1 bréf parma­skinka
Jóm­frúarolífu­olía
Salt­flög­ur eft­ir smekk
Hun­ang
Límónu­majónes, sjá upp­skrift fyr­ir neðan
Mangósalsa, sjá upp­skrift fyr­ir neðan.
Kerfill til skrauts

Aðferð:
Byrjið á því að gera mangósalsa og límónu­majónes. Kveikið síðan á grill­inu og náið hit­an­um upp. Þræðið síðan skelfletta humar­inn upp á spjótið. Leggið á disk og hellið yfir hann ólífu­olíu og stráið gróf­um salt­flög­um yfir. Grillið síðan humarspjót­in á fun­heitu grill­inu, ör­stutt, um það bil 1 til 2 mín­út­ur á hvorri hlið. Setjið aft­ur á disk og sprautið síðan límónu­majónesi yfir ef þið eruð með það í sprautu­poka ann­ars setjið þið það á með skeið.

Næst setjið þið mangósalsa yfir humarspjót­in með skeið, góða fyll­ingu ofan á hvert spjót. Loks setjið þið eina sneið af parma­skínku ofan á hvert humarspjót líkt og Hugi ger­ir í þætt­in­um. Síðan er gott að setja smá hun­ang yfir parma­skink­una eft­ir smekk. Kryddið ör­lítið með gróf­um salt­flög­um. Að lok­um er gam­an að skreyta humarspjót­in með kerf­il og bera fag­ur­lega fram.

Límónu­majónes
1 bolli maj­ónes
3 msk. hun­ang
Börk­ur af einni límónu
2 msk. fersk­ur límónusafi
1/​4 tsk. salt eða eft­ir smekk
1/​4 tsk. pip­ar eða eft­ir smekk

Aðferð:
Hrærið öllu hrá­efn­un­um sam­an þar til allt er vel blandað sam­an. Saltið svo og piprið eft­ir smekk. Setjið inn í sprauta­poka ef vill, ann­ars í gott ílát. Geymið í ís­skáp, með loki eða plast­filmu, þar til til­búið til notk­un­ar.

Mangósalsa
3 þroskuð mangó, skor­in í ten­inga
1/​2 bolli rauðlauk­ur, saxaður
1/​4 bolli ferskt kórí­and­er, saxað smátt
1 jalapeno, fræhreinsaður og saxaður smátt
Safi úr 1 stórri límónu (u.þ.b. 1/​4 bolli)
1/​8 - 1/​4 tsk salt, eft­ir smekk.

Aðferð:
Blandið öll­um hrá­efn­un­um sam­an í skál. Smakkið svo til með salti og bætið við límónusafa ef vill. Geymið í ís­skáp, hulið, þar til til­búið til notk­un­ar.

Grilluðu fer­skju- og eplabaka

Kara­mella
3 msk. brætt smjör
3/​4 bolli púður­syk­ur
1 fer­skja, af­hýdd og sneidd
1 epli, af­hýtt og sneitt

Aðferð:
Byrjið á því að hita grillið. Blandið bræddu smjöri og púður­sykri sam­an. Skerið fer­skj­ur og epli niður í sneiðar og grillið í ör­fá­ar mín­út­ur á grill­inu. Smyrjið syk­ur­blönd­unni jafnt út á botn­inn á formi. Raðið síðan fer­skjusneiðum og eplasneiðum ofan á.

Bak­an
1 1/​2 bolli hveiti
1 1/​2 tsk. lyfti­duft
Hnífsodd­ur salt
2 stór egg
1 bolli syk­ur
1 tsk. vanillu­drop­ar
3 msk. matarol­ía
5 msk. smjör við stofu­hita
1/​2 bolli mjólk

Aðferð:
Sigtið hveiti, lyfti­duft og salt sam­an í skál. Í ann­arri skál, hrærið sam­an smjöri, sykri og olíu. Bætið síðan eggj­um sam­an við og hrærið. Hrærið helm­ing af þur­refna­blönd­unni við. Bætið svo mjólk út í og hrærið. Bætið að lok­um rest­inni af þur­refna­blönd­unni við og hrærið. Hellið deig­inu yfir kara­mellu­lagið í form­inu og sléttið vel út. Setið kök­una í form­inu á grillið í 15-20 mín­út­ur og leyfið henni síðan að hvíla í 5-10 mín­út­ur áður en hún er bor­in fram. Gott er að bera fram kök­una með ís og kara­mellusósu.

Sjá myndband hér