8. Júlí 2025
Grilluð nautalund og humar með frumlegu tvisti
Wiktor Pálsson landsliðskokkur er gestur Sjafnar Þórðardóttur í næsta þætti í grillþáttaseríunni Logandi ljúffengt. Hann gerir nýja útfærslu á réttinum sem ber heitið Haf og hagi, þar sem humar og nautalund eru í aðalhlutverki. Hann grillar hráefnið á spjóti með frumlegum og einföldum hætti. Síðan býður hann upp á grillaðan eftirrétt þar sem ávextir koma við sögu ásamt góðgæti sem bráðnar í munni. Allt hráefnið fæst í Hagkaup.
Wiktor vann keppnina, Konfektmoli ársins, árið 2024 og tók einnig þátt í keppninni um titilinn Kokkur ársins 2025 og gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti sem var framúrskarandi árangur. Hann starfar á veitingastaðnum Lólu sem er nýr og er staðsettur í hjarta miðborgarinnar í Hafnarhvoli við Tryggvagötu 11.
Þrátt fyrir ungan aldur er Wiktor hokinn reynslu í veitingabransanum og er þegar orðinn þekktur fyrir sína fáguðu og vönduðu matargerð. Wiktor hefur dálæti af starfinu og er líka góður að matreiða einfalda rétti sem allir eiga að geta leikið eftir. Þetta eru til að mynda réttir sem allir verða að prófa í næstu grillveislu.
Grillað nauta- og humarspjót með reyktu chilli-kremi, nashi-perum, pikkluðum jalapeno og unagi-gljáa – Nýstárleg útgáfa af réttinum Haf og hagi.
500 g nautalund
6 stk. kanadískir humarhalar, afþýddir
Marínering:
200 g hvítlauksolía
20 g chipotle
1 tsk. malaður svartur pipar
Sítrónubörkur af ½ sítrónu
Aðferð:
Kveikið upp í grillinu og munið að kveikja tímanlega undir kolunum ef þið kjósið að grilla á kolagrilli. Byrjið á því að skera humarinn og nautalundina í jafna teninga. Útbúið maríneringuna. Setjið allt hráefnið í skál og hrærið saman. Penslið maríneringunni yfir hráefnið og látið marínerast í um það vil 30 mínútur, ef tími gefst. Þræðið humarinn og nautið saman á spjót og dustið vel yfir salti og smá olíu. Gott er að nota stálspjót ef þið eigið til annars viðaspjót en þá er gott að láta þau liggja í bleyti í hálftíma fyrir notkun. Athugið hvort grillið hefur náð þeim hita sem þið viljið hafa. Setjið spjótin á grillið. Grillið vel á hverri hlið, takið af grillinu, penslið með unagi-gljáa (sjáið uppskrift fyrir neðan) og grillið aftur. Leyfið spjótunum að hvíla 5-10 mínútur í lokuðum bakka eða á hólfi á grillinu þar sem hitinn er ekki mikill
Unagi- gljái
150 g sojasósa
200 g sake
400 g mirin
50 g sykur
Aðferð:
Blandið öllu hráefninu saman í pott og sjóðið niður um 1/3.
Kælið fyrir notkun.
Kryddjurta- og laukdressing ofan á spjótin
1 stk. shallot laukur, fínskorinn
1 búnt fersk steinselja, fínskorin
1 búnt graslaukur, fínskorinn
1 stk. Nashi pera
Ólífuolía eftir smekk
Sítrónusafi fyrir peruna
Aðferð:
Hrærið öllu saman í skál nema Nashi-perunni og með smá ólífuolíu. Skerið peruna í þunnar ræmur og dressið hana með sítrónusafa.
Reykt chilli-krem
300 g Hellmans majónes
3 tsk. chipotle
1 tsk. salt
Safi úr ½ sítrónu
Aðferð:
Setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman. Setjið í sprautupoka ef vill. Má líka setja ofan á með skeið.
Samsetning:
Þegar spjótin eru búin að hvíla eftir grillun, raðið þeim á disk eða bakka. Setjið kryddjurta- og laukdressinguna ofan á hvert spjót. Setjið síðan ræmurnar af perunni yfir.
Toppið loks spjótin með reykta chilli-kreminu og berið fallega fram.
Grillað ávaxta- og kleinuhringjaspjót með sykurpúðum, karamellu- og vanilluís
2 stk. ferskjur
½ ferskur ananas
6 stk. mini kleinuhringir
Vanilluís að eigin vali
Dulce de leche karmella í krukku
Litlir sykurpúðar eftir smekk
1 pk. Nóa Kropp, kurl
1 pk Karamellukurl frá Nóa
1 flaska Lyles golden síróp
Aðferð:
Skerið ananas, ferskjur, kleinuhringi og sykurpúða í teninga og þræðið allt upp á spjót nema sykurpúðann. Gott er að nota stálspjót ef þið eigið til annars viðarspjót en þá er gott að láta þau liggja í bleyti í hálftíma fyrir notkun.
Grillið spjótin á báðum hliðum. Takið svo af grillinu og penslið með lyles-sírópi og endurtakið grillunina. Setjið spjótin á bakka eða álpappír og bætið ofan á þau sykurpúðum eftir smekk. Látið bakkann á grillið við aðeins vægari hita og eldið þar til sykurpúðarnir byrja að brúnast og bráðna yfir ávextina og kleinuhringina. Þegar sykurpúðarnir eru grillaðir eru spjótin klár. Raðið spjótunum fallega á disk, setjið smá vanillu- og karamelluís við hliðina á og toppið með karamellusósunni og Nóa Kropp- og karamellukurlinu. Berið fram og njótið. Það má líka setja kræsingarnar saman í skál og toppa með ísnum, karamellusósunni og kurlinu. Hver og einn getur gert þetta með sínu nefi.