3. Október 2023

Pálmi Jónsson – 100 ára minning

Pálmi Jónsson, stofnandi Hagkaups, fæddist 3. júní 1923 á bænum Hofi á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann ólst því upp í bændasamfélagi og tók virkan þátt í búskapnum frá unga aldri. Fljótlega var eftir því tekið hve útsjónarsamur hann var. Hann naut þess að finna nýjar leiðir til að létta störfin eða gera þau árangursríkari og hreif fólk með sér. Hugmyndaauðgi, framkvæmdagleði og leiðtogahæfni voru því eiginleikar sem fljótlega komu í ljós í fari Pálma.

Eftir nám í barnaskólanum á Hofsósi fluttist hann suður, lauk stúdentsprófi frá MR 1942 og lögfræðiprófi frá HÍ 1951. Strax á námsárunum kviknaði áhugi hans á viðskiptum og ljóst að þangað stefndi hugurinn.

Hugsjónir Pálma lituðust allt tíð af réttlætiskennd og umhyggju fyrir fólki. Hann skynjaði þörf fyrir breytingar þar sem vöruskortur, dýrtíð, innflutningshöft og dýrir milliliðir höfðu einkennt verslunarlífið um árabil, auk þess sem skipting markaðar litaðist mikið af pólitíkinni í landinu. Barátta hans fyrir breyttu umhverfi var ekki alltaf auðveld en neytendur héldu með honum, enda var hann einlægur talsmaður lægra vörðverðs. Eftir að hafa rekið veitingastað og ísgerð um tíma stofnaði hann Hagkaup póstverslun árið 1959 þar sem yfirbyggingin var engin. Fyrirtækið óx hratt, þökk sé framsýni hans og stórmerku frumkvöðlastarfi. Pálmi var forvígismaður að byggingu verslunarmiðstaðvarinnar Kringlunnar og braut þar enn eitt blaðið í íslenskri verslunarsögu.

Stjórnunarstíll hans þótti óvenjulegur en hann átti aldrei eigin skrifstofu eða skrifborð. Þess meiri áherslu lagði hann á samræður við fólk rissaði gjarnan upp hugmyndir og útreikninga á ýmiskonar óformleg pappírssnifsi. Hann barst ekki mikið á, var yfirlætislaus, hlýr, gamansamur og næmur á umhverfi og fólk.

Pálmi kvæntist Jónínu Sigríði Gísladóttur árið 1959 en þau eignuðust fjögur börn sem öll hafa látið til sín taka í íslensku viðskiptalífi.

Pálmi lést um aldur fram þann 4. apríl 1991, aðeins tæplega 68 ára að aldri.