17. Janúar 2023

Daglegt brauð

Líkaminn er einstakt fyrirbæri og starfsemi hans flókin. Til þess að líkaminn fái orku fyrir starfsemina þarf að innbyrða ýmis næringarefni. Þetta er eins og með bíl, til þess að keyra hann frá Sandgerði til Selfoss þarf að setja á hann eldsneyti. Það velur enginn að setja ólífuolíu á bíl, jafnvel þótt hann færi nokkra metra á henni, heldur er valin olía sem er gædd öllum þeim efnum sem eru bílnum nauðsynleg.

Hollt mataræði snýst ekki um að setja lítið ofan í sig, heldur að borða allt það sem líkaminn þarf á að halda til að starfa rétt. Borða mat sem er ríkur af næringarefnum af náttúrunnar hendi, t.d. grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur. Þessi matvæli eru trefjarík og stuðla að heilbrigðri þarmaflóru. Trefjaríkur matur er líklega þekktastur fyrir getu sína til að mýkja hægðir og koma í veg fyrir hægðatregðu. Líkaminn getur ekki melt trefjar en þær taka m.a. þátt í að frásoga næringarefni úr fæðunni, hægja á niðurbroti kolvetna og einnig geta bakteríur í þörmunum brotið niður trefjar og nærast þannig á þeim. Með þessum hætti tekur trefjaríkt fæði þátt í blóðsykurstjórnun líkamans og örvar vöxt á heilbrigðri þarmaflóru.

Matvæli sem innihalda trefjar gegna einnig fleiri heilsufarslegum ávinningum, t.d. hjálpa til við að viðhalda heilbrigðri þyngd, draga úr hættu á sykursýki, hjartasjúkdómum og sumum tegundum krabbameina. Heilbrigð þarmaflóra minnkar líkur á sýkingum og þannig er næringarríkur matur að styrkja líkamann og verndar fólk gegn vágestum.

Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu, trefjaríku mataræði og er mælt með að borða fimm skammta á dag eða um 500 gr. Hollusta þeirra er meðal annars fólgin í ríkulegu magni af vítamínum og steinefnum. Gott er að borða bæði hrátt og matreitt grænmeti. Frosið er einnig góður kostur sem hægt er að bæta út í rétti til að auka fjölbreytni. Einnig er mælt með bauna- og grænmetisréttum.

Við sjálf höfum mikil áhrif á okkar heilsu og líðan. Hollt mataræði er val en gott er að rifja upp reglulega af hverju við viljum borða næringarríka fæðu. Til þess að finna hollan kost matvæla má t.d. leita að skráargatinu. Skráargatið er opinbert merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna.

Höfundur: Helga María