10. Júlí 2025
Grillmeistarinn Kristín töfrar fram sumarstemningu
Kristín Birta Ólafsdóttir matreiðslumeistari og landsliðskokkur fer á kostum nýjasta þættinum af Logandi ljúffengt á matarvef mbl.is og töfrar Sjöfn upp úr skónum með grilltöktum sínum og gefur áhorfendum góð ráð þegar grilla skal. Hún grillar heilan humar í skel í forrétt sem hún ber fram með mangó- og maíssalsa sem er ómótstæðilega ljúffengur réttur og fallega framsettur.. Allt hráefnið fæst í verslunum Hagkaups.
Í aðalrétt grillar Kristín nautaribeye-steik á kolagrilli sem hún ber fram með chimichurri, grilluðum piccolo tómötum á grein og brokkólíni, sem er hreint sælgæti að njóta. Kristín mælir með því að gera chimichurri-dressinguna daginn áður en hún er borin fram.
Kristín er vaktstjóri á veitingastaðnum á Grandhótel og hannaði meðal annars nýja sumarseðilinn sem er að slá í gegn þessa dagana. Hún hefur náð glæsilegum árangri á ferli sínum og meðal annars unnið bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu svo fátt sé nefnt.
Humar með salsa tvisti og nauta-ribeye með chimihchurri borin fram með grilluðu piccolotómötum og brokkólníi
Grillaður kanadískur humar með salsa tvisti
2 kanadískir humarhalar, afþýddir
1/2 stk. chili
2 hvítlauksgeirar
10 g fersk steinselja
200 g smjör
Smá sjávarsalt
Aðferð:
Leggið humarhalann á bretti og notið skæri til að klippa skelina langsum að endanum á halanum. Haldið utan um humarhalann og kreistið varlega þar til þið heyrið brothljóðið, til að ná að opna hann betur. Skafið meðfram kjötinu, til að losa það frá skelinni. Saxið steinselju, hvítlauk og chili smátt, og setjið saman með smjörinu í pott og látið malla aðeins. Penslið humarinn með smá bræddu smjöri og leggið hann síðan á gasgrillið. Grillið í 3-4 mínútur, snúið honum síðan við og penslið kryddsmjörinu duglega á hann. Saltið með sjávarsalti eftir smekk. Færið síðan humarinn á efri hilluna á grillinu, ef hún er til staðar, til að klára að elda hann, eða setjið í bakarofn í örskamma stund. Látið hann svo hvíla í nokkrar mínútur áður en þið berið hann fram. Kjörinn kjarnhiti humars er á bilinu 55-60°C eftir að hann hefur hvílt.
Mangó- og maíssalsa
1 stk. mangó
1 stk. ferskur maísstöngull
1 stk. tómatur
3 g ferskt kóríander, saxað
5 g graslaukur, saxaður
Smá sjávarsalt eftir smekk
Safi úr ½ sítrónu
1 msk. smjör
1 stk. sítróna, til að grilla sér
Aðferð:
Skerið mangó og tómat í litla teninga. Penslið maísstöngulinn með smjöri og grillið á öllum hliðum. Setjið sjávarsalt yfir hann eftir smekk. Þegar hann er tilbúinn skerið hann þá niður meðfram kjarnanum og rifið eða skerið út í salatið. Saxið kóríander og graslauk og setjið út í, ásamt sítrónusafa og sjávarsalti. Berið fram með grillaðri sítrónu.
Samsetning:
Berið grillaða humarinn fram með mangó- og maíssalsa og skreytið diskinn með smá graslauk og chili. Setjið grilluðu sítrónuna á disk. Fallega framreiddur réttur fangar ávallt auga og munn.
Nauta ribeye
1 stk. nautaribeye (400-500g)
200 g smjör
Sjávarsalt eftir smekk
Aðferð:
Leyfið nauta ribeye-kjötinu að standa við stofuhita í um eina klukkustund fyrir grillun. Hitið síðan kolagrillið eða gasgrillið þannig að það verið funheitt. Setjið síðan steikina á funheitt kolagrill eða gasgrill og grillið á báðum hliðum. Kryddið til með sjávarsalti. Þegar þið snúið steikinni við penslið þá smjörinu á hana. Takið af grillinu þegar þið haldið að steikin sé tilbúin en þið getið líka mælt hitann með kjöthitamæli og þá er gott að taka steikina af þegar hitinn er á milli 54-56°C, þá er hún medium rare. Látið hvíla smástund áður en hún er borin fram. Grillið grænmetið á meðan.
Meðlæti
Piccolo tómatar á grein
Brokkólíni
Ólífuolía
Gróft salt ef vill
Aðferð:
Penslið tómatana og brokkólíni-ið með ólífuolíu og saltið ef vill. Setjið á grillið í smástund og grillið á öllum hliðum.
Samsetning:
Skerið steikina í fallegar sneiðar og raðið á viðarbretti, setjið síðan chimichurri (sjá uppskrift fyrir neðan) yfir sneiðarnar og raðið grillaða grænmetinu, tómatgreininni og brokkólíninu á brettið.
Chimichurri
125 g ólífuolía
2 msk. rauðvínsedik
1 búnt söxuð steinselja
1 chili saxaður
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk. óreganó, þurrkað
1 tsk. gróft sjávarsalt
Smá svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
Blandið öllu hráefninu saman í skál og látið standa í kæli yfir nótt til að bragðið nái að blandast við olíuna. Dressingin er sett yfir kjötið eftir að það hefur verið skorið.