Vinsamlegast ath!

Veisluréttir eru uppseldir laugardaginn 15. júní
22. júní er að fyllast og við hvetjum fólk til þess að panta sem fyrst

12. September 2023

Heilbrigð þarmaflóra

Heilbrigð þarmaflóra er mikil lífsgæði. Það að ná að vinna rétt úr fæðu og fá orku frá næringunni er grunnurinn að heilbrigðri líkamsstarfsemi. Heilbrigð þarmaflóra veitir einnig vernd gegn sýkingum. Röskun á þarmaflórunni getur t.d. komið fram við mikla streitu, veikindi, lyfjainntöku, áfengisneyslu, mikla koffín neyslu og einnig vegna svefnleysis. Ef þarmaflóran raskast er ein einfaldasta leiðin til að bæta ójafnvægið að taka inn góðgerla. Góðgerla má til dæmis finna í súrum mjólkurvörum eins og AB mjólk og LGG og sýrðu grænmeti eins og súrkáli en má einnig taka inn sem bætiefni.

Hreyfing eykur þarmahreyfingar og því nauðsynlegt að hreyfa sig reglulega yfir daginn, standa reglulega upp og helst taka nokkur skref.

Æskilegasta verkfærið til að bæta þarmaflóruna er að bæta mataræðið. Betra er að takmarka neyslu á matvælum sem er búið að vinna mikið. Næringargildi er ekki jafn hátt og hjá ferskvöru og því er mælt með að forðast sem dæmi frostpizzur og búa frekar til heilkornabotn og setja hollt álegg ofan á.

Trefjar örva vöxt heilbrigðrar þarmaflóru og auka mýkt og umfang hægða. Trefaríkt fæði dregur einnig úr líkum á gyllinæð og ristilpokum. En trefjar gegna einnig mikilvægu hlutverki í blóðsykurstjórnun líkamans og trefjaríkt fæði hægir á meltingunni og því finnur maður lengur fyrir seddutilfinningu. Trefjar finnast meðal annars í vörum úr heilkorni, eins og grófu brauði, hýðishrísgrjónum og pasta, en einnig í belgjurtum, ávöxtum, grænmeti, hnetum og baunum.

Ráð til að auka trefjaneyslu:

·         Velja brauð eða pasta úr heilkorni. Gróf heilkornabrauð með fræjum.

·         Velja trefjaríkan morgunmat og morgunkorn. Til dæmis AB mjólk með grófu múslí og ávöxtum. Velja All Bran morgunkorn frekar en Corn Flakes.

·         Borða heila ávexti í stað þess að drekka ávaxtasafa.

·         Skipta út hvítum hrísgrjónum í hýðishrísgrjón

·         Bæta baunum við máltíðina. Setja baunir út í súpur og jafnvel skipta út kjöti fyrir baunir sem próteingjafa inn á milli. Það er bæði ódýrari kostur og fljótlegra að matreiða.

·         Auka grænmetisneyslu með því að hafa grænmeti með hverri kjöt- eða fiskmáltíð. Skera niður grænmeti t.d. blómkál, gulrætur og brokkolí og dýfa í smá ídýfu frekar en að fá kex og snakk á kvöldin.

Höfundur: Helga María fyrir Hagkaup