13. Febrúar 2025

Jóna Dóra Ásgeirsdóttir nýr vöruflæðis- og birgðastjóri Hagkaups

Jóna Dóra Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin nýr vöruflæðis-og birgðastjóri Hagkaups. Meginhlutverk starfsins er að tryggja áreiðanleika upplýsinga í birgða- og innkaupakerfum Hagkaups. Vöruflæðis- og birgðastjóri starfar þvert á deildir fyrirtækisins. Hún hefur þegar hafið störf.

Jóna Dóra hefur víðtæka reynslu af birgðastýringu, meðal annars fyrir fyrirtækin ILVA og Vodafone. Einnig þekkir Jóna Dóra Hagkaup vel en hún hóf fyrst störf hjá fyrirtækinu árið 1992 þá á afgreiðslukassa og vann sig síðar upp í ýmis störf innan fyrirtækisins á borð við deildarstjóra matvöru, svæðisstjóra leikfanga og aðstoðarverslunarstjóri.

Jóna Dóra er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum á Bifröst og útskrifaðist með meistaragráðu í forystu og stjórnun frá sama skóla árið 2017.

„Framundan eru spennandi tækifæri til að bæta ferla, auka skilvirkni og tryggja að við höldum áfram að veita framúrskarandi þjónustu.“ Segir Jóna Dóra Ásgeirsdóttir.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Jónu Dóru aftur heim í Hagkaup með alla sína reynslu í þetta mikilvæga hlutverk innan fyrirtækisins. Öflug birgðastýring skiptir gríðarlega miklu máli og þá kemur Jóna Dóra sterk inn með alla sína þekkingu eftir að hafa starfað í verslun í fjöldamörg ár. Hún mun meðal annars hafa yfirumsjón með AGR birgðakerfi fyrirtækisins sem er okkar mikilvægasta tól í baráttunni við matarsóun. Við erum eins og fyrr segir afar ánægð að hafa fengið Jónu Dóru aftur í Hagkaup og við hlökkum til að fylgjast með henni í þessu nýja og mikilvæga hlutverki“ segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups.