8. Janúar 2024

Nýtt ár og hreinir förðunarburstar

Nýtt ár kallar á allskonar nýársheit en það er tilvalið fyrir þau sem nota förðunarvörur að tileinka sér það að þrífa förðunarbursta og önnur áhöld vel og reglulega. Förðunin verður mun fallegri með hreinum og fínum burstum auk þess sem hreinlæti er algjört lykilatriði þegar kemur að förðun. Það eru til margar gerðir af burstahreinsum og þeir virka mismunandi svo það ættu öll að geta fundið sér hreinsi við hæfi. Við ætlum hér að segja frá 3 tegundum af hreinsum og vonum að þið finnið þann sem hentar ykkur og ykkar þörfum best.

Cinema Secrets – Makeup Brush Cleaner (starter kit)

Þessi hreinsir er fljótandi og er hreinsir sem er mjög vinsæll meðal förðunarfræðinga í heiminum. Í pakkanum sem hér er um að ræða fylgir burstahreinsirinn og lítil dós sem notuð er til þess að þrífa burstana. Við einfaldlega hellum smá af hreinsi í dósina og smellum burstanum ofan í og þurrkum svo í pappír eða handklæði. Það er líka hægt að hella smá af vökvanum í pappír og nudda bustanum í og þrífa hann þannig. Burstinn þornar samstundis og er hægt að nota strax! Hreinsirinn bræðir burt allar tegundir af förðunarvörum. Algjör snilld ef það þarf að þrífa burstana hratt og örugglega. Athugið að þennan hreinsi þarf ekki að skola úr.

Real Techiques – Brush Cleansing Balm

Hér höfum við burstahreinsi í föstu formi og hentar vel fyrir bæði bursta og svampa. Það er mjög einfalt að nota þessa vöru en þú byrjar á því að bleyta burstana og nuddar svo ofan á hreinsinn og sækir þannig hreinsi á burstann. Með hreinsinum fylgir svo lítil sílíkonmotta sem hægt er að nudda burstanum á til þess að hjálpa til við að ná öllu úr honum. Svo er bara að skola burstana vel og ferlið má svo endurtaka fyrir þær vörur sem erfiðara er að ná úr. Eftir þvottinn þurfa burstarnir svo tíma til þess að þorna en það er snjallt að leggja þá á handklæði til þerris.

Mist & Co. – Makeup Brush Cleaner Daily

Síðastur en ekki sístur, hreinsir í spreyformi! Hreinsinum er einfaldlega spreyjað 2-4 sinnum á hvern bursta og burstanum síðan nuddað í handklæði eða hreinsiklút. Ef burstinn er ekki hreinn eftir fyrstu umferð þá er um að gera að spreyja aftur. Það getur tekið 2 tilraunir að ná erfiðum vörum líkt og farða eða hyljara úr burstunum. Eftir þetta er burstinn hreinn, þurr og tilbúinn til notkunar. Virkilega einfalt og þægilegt, sérstaklega fyrir fólk á ferðinni.

Það er ágæt regla að þrífa burstana sína að lágmarki 1 sinni í viku, í fullkomnum heimi eftir hverja notkun en við vitum að fáir gera það. Það er því gott að eiga hreinsi sem hentar vel, tekur skamma stund og virkar! Það getur lengt endingartíma burstanna að halda þeim hreinum og hugsa vel um þá auk þess sem það er betra fyrir húðina að nota hreina bursta. Ef þið viljið skoða frekari leiðbeiningar þá erum við með skemmtilegt myndband á instagram síðunni hagkaupsnyrtivara sem sýnir hvernig mismunandi burstahreinsar eru notaðir.

 

Höfundur: Lilja Gísladóttir fyrir Hagkaup